„Nokkrir leikmenn fengu högg í leiknum gegn Lettum og á æfingunum á milli leikjanna. Svava Rós [Guðmundsdóttir] er í mesta kapphlaupinu við tímann en við vonum að hún og aðrir leikmenn sem eru tæpir verði klárir í slaginn. Svíar eru með líkamlega sterkt lið en við teljum okkur vera það líka og við munum mæta þeim af fullum krafti í baráttunni,“ segir Jón Þór.

„Mér finnst hafa verið stígandi í spilamennsku liðsins eftir að ég tók við og það var gott að sjá liðið spila jafn vel og það gerði eftir hléið vegna kórónaveirufaraldursins á móti Lettlandi. Vonandi heldur sá góði taktur sem hefur verið í liðinu áfram í þessum leik. Það er afar mikilvægt að ná hagstæðum úrslitum,“ segir þjálfarinn enn fremur.

Glódís Perla þekkir vel til leikmanna sænska liðsins enda eru sex leikmenn í sænska hópnum liðsfélagar Glódísar hjá Rosengård.

„Við munum líklega liggja til baka í þessum leik og spila þéttan og agaðan varnarleik þegar við erum ekki með boltann. Við verðum hins vegar að þora að halda í boltann þegar við vinnum hann þannig að þetta verði ekki of mikill eltingarleikur. Skyndisóknir okkar þurfa að vera vel útfærðar þegar færi gefst á þeim. Við verðum síðan að standa vaktina vel í föstum leikatriðum og nýta okkar föstu leikatriðin vel að sama skapi,“ segir Glódís Perla.

„Það hefur verið gaman að fylgjast með ungu leikmönnunum sem hafa verið að brjóta sér leið inn í liðið í síðustu leikjum og stóðu sig mjög vel í leiknum á móti Lettum. Vonandi halda þær áfram að vaxa og það er hlutverk okkar reynslumeiri leikmannanna að aðstoða þær við það,“ segir Glódís sem leikur á morgun sinn 86. landsleik sem er afar vel af sér vikið þegar litið er til þess að hún er einungis 25 ára gömul.