„Við fréttum af þessu í morgun, þetta var eitthvað sem ekki var hægt að sjá fyrir en það er ljóst að við höldum ekki landsleik í Höllinni í janúar,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdarstjóri HSÍ, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Eins og fjallað var um á vef Fréttablaðsins í dag urðu talsverðar skemmdir á gólfi Laugardalshallar í síðustu viku og líklegt er að það þurfi að skipta um gólfið.

Samkvæmt framkvæmdastjóra á eftir að rífa gólfið upp til að kanna skemmdir en talsvert hefur lekið í timburgrind undir gólfi og steinull sem er inni í grindinni.

„Við erum enn að afla okkur upplýsinga en staðan er vissulega áhyggjuefni, það er engin leið að segja hvenær þessum framkvæmdum verður lokið. Það er því líklegt að við þurfum að færa leikinn í annað íþróttahús og koma þá Ásvellir sterklega til greina,“ segir Róbert.

„Til þess þyrftum við að fá undanþágu frá undanþágunni sem við erum fyrir á hjá evrópska handboltasambandinu.“

Handboltasambandið hefur verið duglegt að kalla eftir nýrri þjóðarhöll en Róbert segir aðspurður þetta ekki mega rekja til þeirra galla sem eru í núverandi höll.

„Þetta var nú bara slys sem gæti gerst í eldri höll eða nýrri eins og ég skyldi þetta. Það er efni í aðra umræðu, staða hallarinnar. Höllinn hefur sinn sjarma en hún er barn sinnar tíma,“ segir Róbert.

Starfshópur skilaði inn grein til Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningamálaráðherra, fyrr á þessu ári um nýja þjóðarhöll og er málið í skoðun.