Það vakti mikla athygli á dögunum þegar að Óskar Örn Hauksson, einn besti leikmaðurinn í sögu KR sem og Íslandsmótsins í kanttspyrnu ákvað að semja við Stjörnuna. KR vildi halda Óskari hjá félaginu en aðspurður að því hvort að KR hefði boðið Óskari þannig samning að hann þurfti bara að leita á önnur mið segir Rúnar svo ekki vera.

,,Nei alls ekki. Við vorum tilbúnir til þess að halda Óskari á þeim launum sem hann er búinn að vera á án þess að fara einhvað nánar út í það. Hann tók sitt val og það var allt gert í sátt og samlyndi. Við þurfum að meta í hvað peningarnir okkar fara og hversu mikið hver og einn á að fá. Óskar er búinn að þjóna félaginu í ég veit ekki hvað mörg ár. Hann er búinn að vera einn besti leikmaður KR frá því að hann kom til félagsins og einn besti leikmaður efstu deildar. Hann er markahæsti leikmaðurinn í sögu KR og sá leikjahæsti en við getum ekki bara út frá því hækkað launinn hans upp í topp, það þarf að vera einhver skynsemi á bakvið það," sagði Rúnar í þættinum 433.is.

Hann segir Óskar hafa þjónað KR afskaplega vel. ,,Hann hafði val um að vera hjá okkur eða fara einhvað annað og hann valdi að fara í Stjörnuna. Við virðum hans ákvörðun þó svo að allir KR-ingar hefðu viljað sjá hann enda ferilinn í KR."

Ekki sáttur við árangur síðasta tímabils

KR endaði í 3. sæti Pepsi-Max deildar karla á síðasta tímabili og sigur Víkings Reykjavíkur í Mjólkurbikar karla sá til þess að KR mun taka þátt í Sambandsdeildinni á næsta ári.

Rúnar segir KR-inga ekki sátta við árangurinn á síðasta tímabili. ,,En við náum Evrópusætinu en byrjuðum mótið dálítið illa og vorum strax þar komnir í eltingarleik og komumst ekkert mikið nær en það á tímabilinu. Deildin er orðin ofboðslega sterk og mjög mörg góð lið sem geta verið að berjast í efstu sætunum."

Vörnin var þétt í Vesturbænum, KR fékk á sig fæstu mörkin í Pepsi-Max deildinni og var mað markahlutfallið +16. ,,,Það þarf að finna jafnvægi þarna á milli, það er að segja að fá á sig fá mörk og geta síðan skorað nægilega mörg mörk."

Torg / Anton Brink

Félagið fékk mikinn liðsstyrk eftir upphaf tímabilsins í Kjartani Henry Finnbogasyni og Theodór Elmari Bjarnasyni. Rúnar bindur miklar vonir við þá leikmenn á næsta tímabili. ,,Það kemur meiri samkeppni með þeim. Kjartan kom til okkar í mjög góðu formi og var búinn að vera spila í Danmörku áður en hann kemur. Theodór Elmar var fljótur að koma sér í form og var frábær þegar að leið á tímabilið og er ótrúlega flottur leikmaður. Þetta eru strákar sem munu vera lykilmenn hjá okkur á næsta ári."

Rúnar er ánægður með leikmannahópinn sem hann hefur í höndunum en hyggst styrkja hópinn um að minnsta kosti tvo leikmenn. ,,Við erum með leikmannahóp í höndunum sem getur gert góða hluti á næsta ári en munum auðvitað þurfa að bæta við okkur, fjölga í hópnum og hafa örlítið meiri samkeppni."

Algjörlega þess virði að prófa þetta

Stefnt er að því að nýtt fyrirkomulag í efstu deild karla og kvenna taki gildi fyrir næsta tímabil. Sett væri á laggirnar úrslitakeppni sem tæki við eftir að leikin hefur verið tvöföld umferð í deildunum. Leikjum myndi fjölga um fimm og efstu sex lið deildarinnar myndu berjast um Íslandsmeistaratitilinn og Evrópusæti á meðan að neðstu sex liðin myndu reyna að forða sér frá falli. Rúnari lýst ágætlega á þessar hugmyndir.

,,Ég hef svosem aldrei verið einhvað sérstaklega hlynntur því að fara í úrslitakeppni en með þessum kæmi fjölgun um fimm leiki á tímabili. Eina sem maður hefur áhyggjur af er að þegar að Íslandsmótinu lýkur og það eru fimm leikir eftir á milli þessara toppliða þá gætu veðuraðstæður og annað slíkt spilað gríðarlega mikið inn í. Maður vill ekki vera að spila úrslitaleiki á Íslandsmótinu í lok október eða byrjun nóvember. Það er dálítið seint og gæti verið smá hætta.

Hann segir að auðvitað sé vilji fyrir því að fjölga leikjum og lengja Íslandsmótið. ,,Við sjáum að veðrið er búið að vera fínt núna í haust og að það er alveg hægt að gera þetta svona en ég held að við þurfum að vera sveigjanleg hvað þetta varðar og geta fært leiki til eða frá. Það er algjörlega þess virði að prófa þetta en svo verðum við að sjá hvernig þetta gengur.

Ánægður fyrir hönd Birkis

Rúnar var fyrir síðasta landsliðsverkefni íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, leikjahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi með 104 A-landsleiki á bakinu. Birkir Bjarnason náði hins vegar að slá það met í leik gegn Norður-Makedóníu þann 14. nóvember síðastliðinn, hann hefur nú leikið 105 A-landsleiki.

Hann segir það ekki erfitt að horfa á eftir metinu til Birkis. ,,Það var ekkert erfitt heldur bara ánægjulegt. Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd og einnig fyrir hönd Birkis Más Sævarssonar. Þessir strákar eru búnir að vinna alveg ofboðslega gott starf og hafa lagt mikið á sig, eru miklar fyrirmyndir og eiga þetta fyllilega skilið," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR í þættinum 433.is sem sýndur var á Hringbraut í gærkvöldi.

GettyImages/samsett