Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu segist vera farinn að finna gleðina á ný í þjálfun eftir að hafa sprungið á því úti í Katar á sínum tíma sem þjálfari Al-Arabi. Heimir hefur verið að aðstoða Hermann Hreiðarsson með þjálfun ÍBV í Bestu deild karla undanfarnar vikur.

,,Ég sprakk aðeins þarna úti og þurfti smá tíma til að ná gleðinni aftur," sagði Heimir í viðtali við Helgarútgáfuna á K100 um nýliðna helgi. ,,Nú er ég aðeins búinn að vinna með Hemma og er farinn að finna fyrir gleðinni aftur. Ég hef alltaf verið í þjálfun af því að mér finnst það gaman, þetta er ekki einhver vinna. Ég er náttúrulega tannlæknir að mennt og það er ágætis vinna."

Varðandi næstu skref hafði Heimir þetta að segja: ,,Það er alltaf eitthvað í gangi. Ég er núna að reyna finna það sem kveikir í mér"

Heimir tók til starfa sem aðstoðar landsliðsþjálfari íslenska landsliðsins í janúar árið 2012 og starfaði þar við hlið Lars Lagerback. Hann tók síðan við sem landsliðsþjálfari Íslands í nóvember 2013 og stýrði liðinu meðal annars á heimsmeistaramótinu í Rússlandi árið 2018.

Heimir lét af störfum sem landsliðsþjálfari í júlí árið 2018 og í desember seinna sama ár tók hann við sem þjálfari Al-Arabi í Katar. Þar stýrði hann liðinu í 62 leikjum þar til í maí í fyrra.