Angela Cullen, aðstoðarkona Sir Lewis Hamilton, sjöfalds heimsmeistara í Formúlu 1 og ökumanns Mercedes, þurfti að standa við stóru orðin eftir árangur Hamilton í Kanada-kappakstrinum um síðustu helgi. Hamilton endaði á verðlaunapalli í keppninni, nánar tiltekið í 3. sæti og hafði fyrir keppnina gert veðmál við Angelu.
Hamilton hefur átt ansi erfiða byrjun á tímabilinu ef miðað er við fyrri ár. Bíll Mercedes hefur ekki verið upp á marga fiska en liðið hitti hins vegar naglann á höfuðið hvað uppsetningu bílsins varðar fyrir Kanada-kappaksturinn. Bæði Hamilton sem og George Russell, liðsfélagi hans hjá Mercedes nældu í mikilvæg stig fyrir liðið.
Veðmál Hamilton við Angelu var þannig að ef Hamilton næði inn á verðlaunapall í keppninni myndi Angela hoppa í á sem liggur við Gilles-Villeneuve brautina í Montreal. Sem og hún gerði eins og sjá má á myndbandi hér fyrir neðan.