Íslenska landsliðið á mögulega á hættu að missa af toppsæti síns riðils í undankeppni EM eftir skell gegn Tékklandi á útivelli. Efsta sæti riðilsins er mikilvægt upp á dráttinn fyrir lokakeppnina.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur verið mikið í umræðunni síðan liðið féll úr leik í milliriðlum HM í janúar. Svarið við döprum árangri landsliðsins var að semja um starfslok við þáverandi landsliðsþjálfara, Guðmund Guðmundsson, en hrakfarir landsliðsins héldu áfram á miðvikudag er liðið lá í valnum gegn Tékkum í undankeppni EM.

Tékkarnir unnu leikinn með fimm marka mun, sóknarleikur íslenska landsliðsins komst aldrei á flug og muna menn vart eftir slakari frammistöðu landsliðsins. Liðin mætast öðru sinni á sunnudaginn og þá í Laugardalshöll. Möguleikar Íslands á efsta sæti riðilsins eru enn til staðar. Strákarnir okkar sitja sem stendur í 2. sæti riðilsins með fjögur stig eftir þrjá leiki, tveimur stigum á eftir Tékklandi sem er enn með fullt hús stiga, með tveimur stigum meira.

Til þess að strákarnir okkar nái að hrifsa til sín efsta sæti riðilsins á nýjan leik verður liðið að vinna með sama mun og Tékkarnir unnu þá með, eða meiri. Með öðrum orðum vinna með fimm eða fleiri marka mun. Þegar talið verður upp úr pokanum og allir leikir riðilsins afstaðnir verður fyrst litið til fjölda stiga þegar horft er á stöðuna.

Fari svo að liðin í efstu tveimur sætunum séu jöfn að stigum verður horft til stigafjölda þeirra í innbyrðis viðureignum. Séu liðin með jafnmörg stig í innbyrðis viðureignum sínum verður horft til markahlutfalls þeirra liða í innbyrðis leikjum þeirra.

Sé enn og aftur allt jafnt á þeim tölum verður horft til fjölda skoraðra marka þeirra í innbyrðis leikjunum og að lokum markahlutfalls liðanna í riðlakeppninni í heild sinni ef þurfa þykir. Efsta sæti riðilsins skiptir máli þegar dregið verður í riðla fyrir EM sem fram fer í Þýskalandi á næsta ári þar sem litið verður til fyrri úrslita þegar skipt verður í styrkleikaflokka.