Það styttist í að nýr aðstoðarlandsliðsþjálfari verði ráðinn inn í karlalandslið Íslands í knattspyrnu. Eiður Smári Guðjohnsen lét af störfum sem aðstoðarlandsliðsþjálfari í desember á síðasta ári og Arnar Þór segir að þrjú efstu nöfn á blaði hjá sér séu íslenskir þjálfarar sem séu allir í starfi.

Samkvæmt heimildum Dr. Football eru þau þrjú nöfn sem eru efst á blaði Arnars Þórs sem mögulegir aðstoðarlandsliðsþjálfarar þeir: Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK og Ólafur Ingi Skúlason þjálfari hjá KSÍ."

,,Hvað ætlar hann að fá frá þessum þremur? Af hverju fær hann ekki bara einhvern 63 ára gamlan Belga sem er búinn að gera allt, til dæmis þjálfa lið á borð við Lokeren, Anderlecht og Cercle Brugge til að aðstoða sig?" sagði Hjörvar Hafliðason, umsjónarmaður Dr. Football og vísar þar í tengsl Arnars Þórs við knattspyrnusamfélagið í Belgíu. ,,Einhvern sem er búinn að lifa og hrærast í leiknum í einhver 30-40 ár og kann þetta," bætti Hjörvar við og telur þau þrjú nöfn sem talin eru vera á borði Arnars ekki vera að fara hjálpa honum neitt.

Á blaðamannafundi fyrir leik Íslands gegn Úganda í síðustu viku, sagði Arnar Þór að þrjú efstu nöfn hjá sér á lista yfir mögulega aðstoðarlandsliðsþjálfara væru allir íslenskir þjálfarar sem væru í starfi um þessar mundir.

,,Fyrstu þrír á blaði hjá mér eru Íslendingar. Mér finnst það vera best fyrir liðið, KSÍ sem og íslenskan fótbolta að vera með íslenskan aðstoðarþjálfara. Helst aðila sem er búsettur á Íslandi," sagði Arnar Þór á blaðamannafundi á dögunum.

Arnar segist vera búinn að ræða við alla þá þjálfara sem séu efstir á blaði hjá honum. ,,Ég er einnig búinn að leita mér ráða hjá reyndum þjálfurum og kollegum mínum í útlöndum. Þessir aðilar sem ég hef rætt mest við vita af áhuga mínum. Ég veit hvernig þjálfara ég er að leita að en þetta snýst bara um að klára þetta ráðningarferli og gera það almennilega."

En hvernig þjálfara er Arnar að leita að? ,,Ég vil vinna með fólki sem ég get treyst. Þarf mann sem þekkir ekki bara íslenska knattspyrnu, heldur þekkir landsliðsumhverfið," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á blaðamannafundi á dögunum.