Arsenal batt enda á níu leikja hrinu sína án þess að bera sigur úr býtum þegar liðið sótti West Ham United heim í síðasta leik 16. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á London-leikvanginn í kvöld.

Lokatölur í leiknum urðu 3-1 Arsenal sem vann sinn fyrsta sigur undir stjórn Freddie Ljungberg og fyrsta sigurinn í deildinni síðan í byrjun októbermánuðar.

West Ham United sem hefur sogast niður í fallbaráttu deildarinnar eftir góða byrjun á yfirstandandi leiktíð komst reyndar yfir í leiknum en þar var að verki Angelo Ogbonna.

Gabriel Martinelli sem lék á vinstri vængnum í leiknum jafnaði metin fyrir Arsenal með fyrsta skoti gestanna á mark heimamanna en jöfnunarmarkið kom eftir klukkutíma leik.

Arsenal sjö stigum frá Meistaradeildarsæti

Leikmenn Arsenal hömruðu járnið meðan það var heitt og Pepe kom Skyttunum yfir þegar hann snéri boltann upp í samskeytin skömmu síðar. Pepe lagði svo upp þriðja mark Arsenal en Pierre-Emerick Aubameyang skoraði þá með viðstöðulausu skoti.

Aubameyang var þarna að skora sitt 11. mark í deildinni á tímabilinu og eru hann og Tammy Abraham, framherji Chelsea, jafnir í öðru til þriðja sæti á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.

Arsenal er í níunda sæti deildarinnar með 22 stig eftir þennan sigur en Sheffield United, Crystal Palace og Newcastle United hafa sömuleiðis 22 stig í sætunum í kring. Arsenal er sjö stigum á eftir Chelsea sem er í fjórða sæti deildarinnar.

West Ham United er hins vegar í 16. sæti deildarinnar með 16 stig en liðið er einu stigi á undan Southampton sem er í efsta fallsætinu. Þessi lið mætast einmitt í næstu umferð deildarinnar um næstu helgi.