Manchester City er Englandsmeistari eftir hádramatíska lokaumferð í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þrjú mörk á fimm mínútum gerðu útslagið fyrir City sem er að vinna fjórða Englandsmeistaratitilinn á síðustu fimm árum.

Liverpool þurfti að treysta á að Manchester City myndi misstíga sig í von um að geta stolið meistaratitlinum á lokametrunum.

Með því er Pep Guardiola orðinn næst sigursælasti knattspyrnustjóri ensku úrvalsdeildarinnar í núverandi fyrirkomulagi og kominn fram úr mönnum á borð við Jose Mourinho.

Staðan var lengi vel vænleg fyrir Liverpool því Manchester City lenti 0-2 undir gegn Aston Villa á heimavelli sínum. Þrjú mörk, tvö frá Ilkay Gundogan og eitt frá Rodri, breyttu stöðunni í flýti.

Það breytti því engu að Liverpool skyldi takast að vinna sinn leik 3-1 með tveimur mörkum undir lok leiksins.

Á sama tíma vann Leeds 2-1 sigur í sínum leik sem tryggði Leeds áframhaldandi veru í efstu deild.

Á sama tíma er ljóst að Burnley er fallið úr efstu deild eftir 1-2 tap gegn Newcastle þar sem Jóhann Berg Guðmundsson kom ekki við sögu.