Í dag eru þrjátíu ár síðan Mike Tyson var rotaður í fyrsta sinn í 38. bardaga ferilsins gegn Buster Douglas í Tókýó.

Á þeim tíma var Douglas í 7. sæti á styrkleikalista þungavigtarinnar á meðan Tyson var ósigraður á atvinnumannaferli sínum.

Mike var búinn að vinna 33 af 37 bardögum sínum með rothöggum og var talinn einn af bestu hnefaleikaköppum sögunnar.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá samantekt ESPN frá bardaganum.

Veðbankarnir höfðu litla trú

Enginn átti von á því að Douglas myndi standast Tyson snúning í Tókýó enda var Mike yfirleitt fljótur að ganga frá andstæðingum sínum.

Aðeins einn veðbanki í Bandaríkjunum var tilbúinn að taka við veðmálum um sigur Douglas og gaf stuðulinn 42 gegn einum.

Aðrir veðbankar voru ekkert að standa í því að bjóða upp á veðmál hver myndi sigra bardagann.

Þess í stað var búist við því að bardaginn væri upphitun fyrir Mike í aðdraganda bardaga gegn Evander Holyfield.

Í aðdraganda bardagans voru vandræði Mike utan hringsins í sviðsljósinu. Hnefaleikakappinn var með stúlkur í heimsókn á hótelherbergi sínu í aðdraganda bardagans.

Söngvarinn Bobby Brown greindi frá því á sínum tíma að þeir hefðu verið út á lífinu langt fram á nótt kvöldið fyrir bardagann.

Douglas lætur höggin dynja
fréttablaðið/getty

Settu klaka í smokk

Auk þess var Tyson sakaður um að vera afslappaður á æfingum og ekki nægilega einbeittur á meðan Douglas æfði eins og óður maður.

Það sást bersýnilega í bardaganum þegar aðstoðarmenn Tyson voru í stökustu vandræðum með að gera að sárum hans á meðan bardaganum stóð enda höfðu þeir ekki komið með kælipoka né sárabindi í bardagann.

Aðstoðarmennirnir þurftu því að grípa til örþrifaráða og hlúðu að sárum Tyson með klaka í smokk.

Á þeim tímapunkti var heimsmeistarinn farinn að sjá illa eftir þungt högg frá Douglas.

Það sást verulega á Mike.
fréttablaðið/getty

Í áttundu lotu virtist Tyson vera að ná yfirhöndinni og sló Douglas niður sem tók átta sekúndur í að standa upp.

Talning dómarans vakti mikla athygli og sökuðu menn úr herbúðum Tyson dómarann um að hafa talið hægt og að í raun hefðu tólf sekúndur liðið sem hefði klárað bardagann.

Í næstu lotu var komið að Douglas að láta höggin dynja á Tyson sem átti í stökustu vandræðum með að standa af sér árásirnar en Mike náði að lifa af inn í tíundu lotuna.

Þegar komið var í tíundu lotu varð Douglas sá fyrsti sem náði að slá Tyson niður í 39. bardaga heimsmeistarans með rothöggi.

Mike reynir að standa upp eftir að hafa verið sleginn niður í fyrsta sinn á ferlinum
fréttablaðið/getty

Fall Tyson hófst í Tókýó

Douglas varð því heimsmeistari þótt að Tyson og Don King, umdeildur umboðsmaður Tyson hafi kært niðurstöðu bardagans.

Þeir töldu að Tyson hafi átt að vinna bardagann í áttundu lotu þegar Douglas hafi verið lengur en tíu sekúndur á fætur.

Nokkrum dögum síðar ákvað Tyson að draga kæruna til baka og var Douglas þá krýndur heimsmeistari í þungavigt.

Tyson vildi ólmur berjast aftur við Douglas inn í hringnum án árangurs því Douglas samþykkti að mæta Evander Holyfield í næsta bardaga þar sem Holyfield sló Douglas niður og hirti titilinn.

Douglas tilkynnti að hann væri hættur eftir bardagann gegn Holyfield en sneri aftur nokkrum árum síðar og barðist tíu sinnum áður en hanskarnir fóru á hilluna á ný.

Hnefaleikakappinn hefur náð betri tökum á lífi sínu undanfarin ár.
fréttablaðið/getty

Eftir bardagann gegn Douglas héldu vandræði Tyson utan hringsins áfram því ári síðar var hann kærður fyrir nauðgun og var dæmdur árið 1992 í sex ára fangelsi.

Þremur árum síðar fékk Tyson að ganga laus og vann heimsmeistaratitilinn á ný árið 1996.

Tyson vann næstu sjö bardaga áður en hann fékk tækifærið gegn Holyfield að vinna titilinn sinn á ný en aftur þurfti hann að lúta í gras.

Þegar Tyson og Holyfield mættust á ný sautján mánuðum seinna var Holyfield dæmdur sigur eftir að Tyson beit í eyra Holyfield í einu eftirminnilegasta atviki hnefaleikasögunnar.

Tyson átti í vandræðum með að halda sér á beinu brautinni síðan þá síðustu ár ferilsins og fyrstu árin eftir að ferlinum lauk en hann hefur náð sér á beinu brautina undanfarin fimm ár.