Keppt verður á nýrri braut í Formúlu 1 um helgina, Losail International brautinni sem er staðsett rétt fyrir utan höfuðborg Katar, Doha.

Ökuþórar fengu í morgun sitt fyrsta tækifæri til þess að æfa á brautinni og Kristján Einar segir brautina krefjandi. ,,Þetta er erfið braut fyrir framúrakstur þannig að tímatakan á morgun mun skipta miklu máli."

Brautin er 5.4 kílómetrar að lengd, hún er hröð og miðlungs- og hraðar beygjur eru ráðandi. Beini kafli brautarinnar er rúmur kílómetri að lengd.

Max Verstappen, ökuþór Red Bull Racing á æfingu í morgun
GettyImages

Yfirburðir Mercedes voru algjörir um síðustu helgi er Sir Lewis Hamilton hrósaði sigri og náði að saxa á forystu Max Verstappen, ökuþórs Red Bull Racing á toppi stigakeppni ökuþóra. Aðeins fjórtán stig skilja kappana að.

,,Heilt á litið með tilliti til þess hvernig þetta er að þróast eftir þessa sturlun um síðustu helgi verður mjög áhugavert að fá aðra keppni bara strax núna um helgina," segir Kristján Einar, umsjónarmaður Formúlunnar og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn í samtali við Fréttablaðið í dag.

Frá því í kappakstrinum í Brasilíu um síðustu helgi hefur atvik sem átti sér stað milli Verstappen og Hamilton verið í skoðun. Hamilton reyndi framúrakstur á Verstappen sem ákvað að loka á hann með þeim afleiðingum að þeir enduðu báðir utan brautar um stund.

Hamilton hafði betur um síðustu helgi
GettyImages

FIA staðfesti fyrr í dag að þeir ætli ekki að aðhafast neitt frekar í kjölfar atviksins. ,,Með því eru í raun búið að færa línuna á því hvað má og hvað má ekki í baráttu milli ökuþóra. Mjög líklega í framhaldinu munum við því fá að sjá harðari baráttu inni á brautinni," sagði Kristján Einar í samtali við Fréttablaðið.

Kristján segir erfitt að ráða í keppni helgarinnar og hvort brautin henti Red Bull eða Mercedes Betur. ,,Fyrirfram átti ég von á því að þetta væri braut sem myndi henta Red Bull Racing mun betur heldur en Mercedes. Í morgun voru Red Bull hraðari en þetta er orðið þannig að bilið á milli þessara liða er það lítið að það er nánast ekkert sem skilur liðin að. Ég hallast að Red Bull sigri um helgina," segir Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinní samtali við Fréttablaðið.