Alþjóða frjálsíþróttasambandið, tilkynnti í gær á hvaða tímum og lengdum frjálsíþróttamenn þurfa að hlaupa, kasta eða stökkva, til þess að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana sem áætlað er að halda í Tókýó á næsta ári.

Lokað var fyrir þann glugga að komast á Ólympíuleikana þegar kórónaveirufaraldurinn skall á og leikunum var frestað. 

Fram kemur í tilkynningu alþjóða frjálsíþróttasambandsins að ákveðið hafi verið að opna á nýjan leik möguleikann á að ná lágmörkum fyrir leikana, 1. september í staðinn. Íþróttafólk hefur svo tíma til loka nóvembermánaðar til þess að tryggja sér farseðilinn til Tókýó.  

Eins og staðan er núna er sundmaðurinn Anton Sveinn McKee eini íslenski keppandinn sem hefur tryggt sér þátttökurétt á leikunum sem fram eiga að fara á næsta ári.