Þríþrautarkappinn Igor Polyanskiy var í dag dæmdur í þriggja ára keppnisbann af Alþjóðaþríþrautarsambandinu sem útilokar hann frá næstu Ólympíuleikum.

Polyanskiy viðurkenndi að hafa tekið inn frammistöðubætandi efni í aðdraganda Ólympíuleikanna en hann féll á lyfjaprófi sem var tekið nokkrum dögum fyrir Ólympíuleikana.

Skipuleggjendur Ólympíuleikanna tóku ekki eftir tilkynningunni um að Polyanskiy hefði fallið á lyfjaprófi og fékk hann því að keppa fyrir hönd Rússlands í einstaklingskeppni og liðakeppni í þríþraut.

Ólympíunefndin ógildi því úrslit rússnesku sveitarinnar og Polyanskiy í einstaklingskeppninni þar sem hann lenti í 43. sæti.

Játning Polyanskiy var metin honum til refsilækkunar og var hann dæmdur í þriggja ára bann sem rennur úr gildi á lokadegi Ólympíuleikanna í París 2024.

Hann keppti einnig fyrir hönd Rússlands á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016.