Þriðja leikinn í röð í Þjóðardeildinni var ýmislegt jákvætt í spilamennsku Íslands en líkt og í síðustu leikjum dugði það ekki til í 2-2 jafntefli gegn Ísrael á Laugardalsvelli í kvöld.

Með jafnteflinu á Ísland enn möguleika á að vinna riðilinn en þarf að treysta á hagstæð úrslit úr leik Albana og Ísrael ásamt því að vinna Albana úti.

Þá lengist biðin eftir sigri íslenska liðsins á liði sem er meðal efstu hundrað á styrkleikalista FIFA. Þetta var 23. leikurinn í röð án sigurs gegn þjóð í efri hluta styrkleikalista FIFA.

Ólíkt síðustu tveimur leikjum í Þjóðardeildinni voru það Íslendingar sem byrjuðu leikinn af krafti og voru að tengja saman sendingar og komast í álitlegar stöður.

Andri Lucas átti fína spretti í framlínu Íslands
fréttablaðið/valli

Jón Dagur Þorsteinsson braut ísinn með skallamarki eftir að Daníel Leó Grétarsson fleytti innkasti Harðars Björgvins Magnússonar inn á vítateiginn.

Stuttu seinna fékk Birkir Bjarnason gott færi eftir sömu uppskrift þar sem Daníel Leó skallaði boltann inn á teiginn en fyrirliðanum brást bogalistin.

Ísraelar komust betur inn í leikinn eftir það og áttu sín færi en Arnór Sigurðsson fékk líka dauðafæri til að bæta við forskotið einn gegn Ofir Marciano en Ísraelinn varði frá Skagamanninum.

Það var búið að róast yfir leiknum þegar Ísraelar jöfnuðu nokkuð óvænt. Skot Ramzi Safuri fór af Daníeli Leó og í netið af stuttu færi.

Hörður Björgvin var nálægt því að koma Íslandi aftur yfir með seinustu spyrnu fyrri hálfleik en skot hans hafnaði slánni og fór yfir.

Staðan var því jöfn í hálfleik eftir jákvæðan fyrri hálfleik hjá íslenska liðinu.

Birkir var að leika 110. leik sinn fyrir Íslands hönd í kvöld.
fréttablaðið/valli

Íslenska liðið komst aftur yfir í upphafi seinni hálfleiks eftir góða skyndisókn sem hófst með frábærri sendingu Harðars á Arnór. Fyrirgjöf Skagamannsins Arnórs rataði fyrir fætur Þóris Jóhanns Helgasonar sem skoraði af stuttu færi

Ísraelar voru fljótir að svara með marki frá Dor Peretz. Rúnar Alex Rúnarsson virtist hafa varið glæsilega frá Peretz en myndbandsdómgæslan gaf til kynna að boltinn hefði farið yfir línuna.

Í endursýningu sem undirritaður sá var ekki auðvelt að fullyrða hvort að boltinn hefði farið yfir línuna.

Það voru gestirnir sem fengu betra færi til að stela sigrinum á lokamínútum leiksins en hvorugu liði tókst að bæta við marki.