Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, þarf að gera þriðju breytingu sína á upphaflegum leikmannahópi sínum fyrir komandi leik liðsins gegn Litháen í undankeppni EM 2022.

Oddur Grétarsson, leikmaður þýska liðsins Balingen, á ekki heimangengt af persónulegum ástæðum að þessu sinni og hefur Guðmundur kallað Hákon Daða Styrmisson, leikmann ÍBV, inn í hópinn í stað Odds.

Ólafur Andrés Guðmundsson og Arnór Þór Gunnarsson sem valdir voru í hópinn geta ekki verið með í þessum leik og voru Magnús Óli Magnússon og Kristján Örn Kristjánsson valdir í þeirra stað.

Íslenski hópurinn kemur saman í Reykjavík næstu helgi og æfir liðið á mánudag og þriðjudag. Leikurinn gegn Litháen sem er sá fyrsti í undankeppninni fer fram miðvikudaginn 4. nóvember í Laugardalshöll.