Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta, er á leið á sitt sjöunda Evrópumót og tólfta Evrópumót alls þegar hann leiðir íslenska liðið í lokakeppni Evrópumótsins sem hefst í Ungverjalandi og Slóvakíu í vikunni.

„Þetta er öðruvísi að þurfa að vera að pæla í því að smitast ekki. Við höfum hins vegar bara tekið þann pól í hæðina að tækla þetta sem verkefni sem þarf að leysa. Okkar lið er ekki það eina sem þarf að díla við þetta þannig að það þýðir ekkert að væla yfir þessu,“ segir Aron um undirbúninginn sem hefur litast af sóttvörnum og ótta við að smitast af kórónaveirunni.

„Það er hins vegar ekkert leyndarmál að þetta er frekar þreytt staða. Að vera að pæla í því að þurfa að spritta sig ítrekað og snerta ekki hurðarhúna og annað í þeim dúr. Þar að auki að geta ekki farið út af hótelinu nema á æfingar. En eins og ég segi þá þýðir ekkert að velta þessu of mikið í þessu," segir Aron um undirbúninginn.

Komin tími til að gera það sama með landsliðinu og félagsliðunum

Hvað komandi verkefni inni á handboltavellinum varðar þá er Aron spenntur og telur að nú sé komið að því að leikmenn sem hafi sannað sig á stærsta sviðinu með félagsliðum sínum undanfarið geri það sama með landsliðinu.

„Mér líður eins og þau kynslóðaskipti sem hafa verið hjá liðinu síðustu kannski þrjú til fjögur árin séu að ganga í gegn núna og við erum með leikmenn á besta aldri sem eru að gera frábærlega með bestu liðum Evrópu. Nú finnst mér vera kominn tími á að þeir geri sig gildandi á stóra sviðinu með landsliðinu og ég finn það alveg að liðsfélagar mínir eru sammála mér. Það er tilfinnanlega mikill eldmóður í leikmönnum," segir fyrirliðinn .

„Það er hins vegar gömul saga og ný að það er tvennt ólíkt að velta fyrir sér möguleikum fyrir mót og svo að standa við stóru orðin inni á vellinum þegar út í alvöruna er komið. Við erum hins vegar með gott lið sem getur gert góða hluti og vitum það alveg. Svo er bara næsta verk að sýna það í verki inni á vellinum," segir hann um mótið sem fram undan er.