Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins segir nokkra leikmenn landsliðsins þreytta eftir erilsama törn undanfarið. Landsliðið er nú samankomið í Portúgal þar sem það bíður eftir úrslitum úr leik heimakvenna gegn Belgíu í umspili um laust sæti á HM 2023.

Ísland mætir sigurvegaranum úr viðureign Portúgals og Belgíu í hreinum úrslitaleik um laust sæti á HM 2023 sem fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

„Staðan er þokkaleg," sagði Þorsteinn í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum KSÍ. „En það er þreyta hjá nokkrum leikmönnum eftir álag undanfarið sem hafa verið að spila í deild og Meistaradeildinni. Það var því létt æfing hjá sumum en aðrar fóru í smá keyrslu."

Hann segir hefðbundna æfingaviku fram undan hjá liðinu. Davíð Snorri Jónasson, landsliðsþjálfari u-21 árs karlalandsliðs Íslands verður á vellinum þegar Portúgal mætir Belgíu og mun leikgreina leikinn.

Úrslitaleikurinn sem Ísland tekur þátt í fer fram þann 11. október næstkomandi, annaðhvort í Portúgal eða Belgíu.