Eftir frábæra byrjun á Old Trafford hefur spilaborgin hrunið hjá Ole Gunnar Solskjaer og félagið tapað þrettán af síðustu 33 deildarleikjum sínum.

Í dag eru 319 dagar liðnir síðan Arsenal varð fyrsta liðið til að sigra Manchester United í deildinni undir stjórn Solskjaer. Fram að því var United búið að vinna tíu leiki og gera tvö jafntefli í tólf leikjum undir stjórn Norðmannsins geðþekka.

Það reyndist fyrsta tap Manchester United af þrettán í næstu 33 leikjum. Á sama tíma hefur liðið aðeins unnið ellefu leiki og fengið 42 stig. Þrátt fyrir það lýsti félagið yfir stuðningi við Solskjaer í morgun á sama tíma og pressan eykst á honum.

Í síðustu níu leikjum síðasta tímabils var uppskeran aðeins átta stig. Tveir sigurleikir, tvö jafntefli og fimm tapleikir. Það var 17. besti árangur deildarinnar í síðustu níu leikjunum á lokasprettinum.

Árangurinn hefur aðeins batnað á þessu tímabili en eftir 24 leiki hefur Manchester United unnið níu leiki, gert sjö jafntefli og tapað átta leikjum, þar á meðal síðustu tveimur leikjum 0-2 gegn nágrönnum sínum í Burnley og Liverpool.

Uppskeran í síðustu 33 leikjum er 42 stig, umtalsvert minna en Liverpool (92) og Manchester City (78). Þá hafa lið á borð við Everton (47), Crystal Palace (46), Newcastle (44) og Southampton (43) náð í fleiri stig á þessum tíma.

Solskjaer hafði betur gegn Mourinho fyrr á þessu tímabili.
fréttablaðið/getty

Til samanburðar tapaði Manchester United aðeins tólf leikjum af 76 á fyrstu tveimur tímabilum Jose Mourinho í brúnni á Old Trafford.

United tapaði fimm leikjum á fyrsta tímabili Mourinho með félagið þegar félagið lenti í sjötta sæti deildarinnar. Ári síðar voru tapleikirnir sjö en það kom ekki að sök þegar Manchester United lenti í öðru sæti á eftir Manchester City.

Heilt yfir tapaði Manchester United sautján leikjum af 92 í ensku úrvalsdeildinni undir stjórn Jose Mourinho eða 18,5% leikja þess portúgalska með félagið.

Hlutfall Solskjaer er þrettán tapleikir í 45 leikjum eða 28,9%.