Þrettán ára sigurgöngu Bandaríkjanna á stórmótunum í körfubolta sem spannaði 58 leiki lauk í dag þegar Frakkar unnu tíu stiga sigur.

Bandaríkin fara því heim án verðlaunapenings í fjórða sinn í sögu HM og þurfa að leika upp á fimmta sætið.

Frakkland var mun sterkari aðilinn í dag og hélt Donovan Mitchell bandaríska liðinu á floti fyrstu þrjá leikhlutana en þegar hægðist á honum tókst Frökkum að sigla aftur fram úr.

Bandaríska liðið hefur verið í sérflokki undanfarin ár og unnið til gullverðlauna á síðustu tveimur HM og síðustu þremur Ólympíuleikum.

Síðasti tapleikur liðsins á stórmóti kom í undanúrslitunum á HM árið 2006 þegar Grikkir náðu óvænt að sigra stjörnum prýtt lið Bandaríkjanna.