Þeir eru þrálátir og verða sífellt háværari orðrómarnir í kringum Formúlu 1 lið McLaren þess efnis um að breytingar verði á ökumannsskipan liðsins fyrir næsta tímabil. Reynsluakstur IndyCar ökumannsins Colton Herta fyrir liðið í Portúgal þessa dagana slekkur að minnsta kosti ekki í þeim orðrómum.

Mikil óvissa ríkir um framtíð Daniel Ricciardo hjá liðinu í Formúlu 1. Ástralinn hefur átt erfitt með að fóta sig hjá liðinu, að sumu leyti til vegna bílsins sem liðið hefur boðið uppá á tímabilinu en staðreyndir er hins vegar sú að hann er töluvert hægari en liðsfélagi sinn Lando Norris.

Andrew Benson, blaðamaður BBC hendir því fram í dag að raunverulegur möguleiki sé á því að Colton Herta gæti tekið sæti Ricciardo en samningur hans rennur út undir lok ársins 2023 eða á sama tíma og samningur Herta við Andretti Autosport rennur út.

,,Herta hefur metnað fyrir því að keppa í Formúlu 1 og mótaröðin sjálf hefur lengi reynt að ýta því inn að fá Bandarískan ökumann til þess að sækja meira fram á Bandaríkjamarkaði. Ef Colton heillar í prófunum í Portúgal gætu ökumannsbreytingar hentað öllum aðilum," skrifar Andrew Benson á BBC.

Benson segist hafa heimildir fyrir því að McLaren sé einnig að undirbúa sig fyrir þá stöðu að Ricciardo vilji ekki halda áfram í Formúlu 1 eftir yfirstandandi tímabil. Honum gæti þá verið boðið sæti hjá liðinu í öðrum mótaröðum.

Auk Colton Herta segir Benson að McLaren sé einnig með augun á Alexander Albon, ökumanni Williams sem hefur heillað á tímabilinu. Þá sé fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel, ökumaður Aston Martin einnig á radarnum. Þá eru einnig til fleiri orðrómar um möguleg skipti Pierre Gasly, ökumann Alpha Tauri sem og Oscar Piastri, varaökumann Alpine.

Daniel Ricciardo hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar
Fréttablaðið/GettyImages

Þar sem er reykur þar er eldur

Will Buxton, margreyndur sérfræðingur í kringum Formúlu 1 þykir frétt Andrew Benson áhugverð. Hann hafi átt erfitt með að trúa orðrómunum í kringum ökumannssæti McLaren en að Benson hendi engu fram án þess að hafa fyrir því sterkar heimildir.

Zak Brown, framkvæmdastjóri McLaren hefur áður sagt að Daniel verði hluti af McLaren árið 2023, liðið vilji veita honum bíl sem geti keppt til sigurs.

,,Hann hefur hins vegar ekki sagt það beint út að Daniel verði með McLaren í Formúlu 1 og eini bíll McLaren sem getur keppt til sigurs eins og staðan er núna er IndyCar bíllinn," skrifar Will Buxton í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter.

Will Buxton (til vinstri)
Fréttablaðið/GettyImages

Buxton segir ákvörðunina samt sem áður vera í höndum Ricciardo eftir því sem hefur komið frá McLaren. Þá segir hann þessa orðróma um mögulegar ökumannsbreytingar hjá McLaren ekki bara koma upp úr þurru.

,,Það sprettur sjaldan upp reykur án elds. Fyrst fóru af stað orðrómar um Pierre Gasly, svo Piastri, Albon og Vettel. Svona orðrómar spretta ekki bara allt í einu upp. Þó svo að ítrekað sé búið að neita þeim býr eitthvað þarna að baki.