Japan gerði sér lítið fyrir og lagði Þýska­land í E-riðli HM í knatt­spyrnu í dag. Japanir lentu undir í leiknum en sýndu mikinn karakter og sneru leiknum sér í hag undir lok leiks

Það voru Þjóð­verjar sem komust yfir í leiknum á 33. mínútu með marki úr víta­spyrnu. Ilkay Gundogan skoraði markið en Shuichi Gonda, mark­vörður Japana hafði gerst brot­legur sem varð til þess að víta­spyrna var dæmd.

Sá átti þó eftir að bæta upp fyrir brot sitt síðar í leiknum með mögnuðum mark­vörslum.

Þrátt fyrir að hafa lent undir létu Japanir þó ekki deigann síga enda ekki þekktir fyrir það. Þeir áttu sín færi og þraut­seigja þeirra skilaði sér á 75. mínútu þegar að Ritsu Doan kom boltanum í netið eftir lag­lega sókn.

Japanir létu ekki þar við sitja heldur bættu við öðru marki á 83. mínútu. Þar var að verki Takuma Asa­no sem skoraði það mark með neglu á nær­stöngina sem Manuel Neu­er náði ekki að komast í veg fyrir.

Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum, hreint út sagt mögnuð úr­slit fyrir Japanska liðið sem að sýndi vel hvað í sér býr í leiknum. Þjóð­verjar sitja eftir með sárt ennið og stiga­lausir eftir fyrstu um­ferð.