Ingvar Jónsson, markvörður Víkings Reykjavíkur og íslenska landsliðsins, mun ekki geta tekið þátt í leik landsleik Íslands og Suður-Kóreu á morgun. Frá þessu greindi Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, á blaðamannafundi í dag.

,,Við vorum að klára æfingu og því miður þurfti Ingvar að stíga út, það er ómögulegt fyrir hann að spila á morgun," greindi Arnar Þór frá á blaðamannafundi í morgun en ljóst er að um mikið svekkelsi er að ræða fyrir Íslands- og bikarmeistarann sem nær því ekki að leika eina mínútu með landsliðinu í þessu verkefni eftir frábært síðasta tímabil.

Þrátt fyrir meiðslin segir Arnar Þór að Ingvar hafi sinnt frábæru hlutverki í verkefninu, í staðinn fyrir að svekkja sig á sínu hlutskipti hefur hann reynst yngri markvörðunum í liðinu vel.

,,Þetta er búið að vera mjög jákvæt. Þrátt fyrir að Ingvar sé mjög fúll yfir meiðslunum þá er hann búinn að hjálpa hinum markvörðunum mikið og hefur miðlað sinni reynslu þrátt fyrir meiðslin," sagði Arnar Þór á blaðamannafundi í dag.

Hann segist ánægður með það hvernig eldri og reyndari leikmenn hópsins hafi stigið upp og nefndi til að mynda Damir Muminovic sem gæti spilað sinn fyrsta landsleik á morgun. ,,Damir hefur verið mjög opinn og mikill leiðtogi í hópnum. Hann hefur strax stigið upp og tekið að sér ákveðið hluverk innan hópsins. Þetta eru allt leikmenn sem hafa verið mjög jákvæðir gagnvart yngri leikmönnum liðsins."

Damir Muminovic í leik með Breiðablik