Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, lofaði því að hann kæmi blaðamönnum á óvart á morgun, aðspurður hvort að það yrði áherslubreyting á milli leikja.

Ísland mætir Frakklandi í lokaleik D-riðils í Rotherham síðdegis á morgun. Sigur gulltryggir Ísland áfram í 8-liða úrslitin en annars þurfa Stelpurnar okkar að treysta á úrslit úr leik Belga og Ítala.

„Það kemur bara í ljós á morgun, en ég kem ykkur á óvart,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundinum í dag, aðspurður út í morgundaginn.

Hann hrósaði franska liðinu þegar franskur blaðamaður spurði út í hverju hann ætti von á frá íslenska liðinu.

„Þetta verður erfitt fyrir okkur. Frakkar eru með gott lið og hafa spilað vel. Sóknarleikurinn hefur verið góður og þær hafa skapað nóg af færum. Við þurfum að verjast vel, fara vel með boltann og nýta færin sem við fáum.“