Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur í kvöld leik í undankeppni HM 2023 þegar liðið fær ríkjandi Evrópumeistara, Holland, í heimsókn á Laugardalsvöllinn.

Holland, sem er silfurlið frá heimsmeistaramótinu árið 2019 og Ólympíuleikunum í sumar, gerði jafntefli við Tékkland í fyrstu umferð undankeppninnar. Þar jafnaði Vivianne Miedema, leikmaður enska liðsins Arsenal, sem er einn besti sóknarmaður heims um þessar mundir metin.

Íslenska liðið mun leika án Elínar Mettu Jensen, sem var markahæsti leikmaður Íslands, í undankeppni EM 2022 en hún á við meiðsli að stríða.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sem skoraði annað mark íslenska liðsins í 2-0 sigri á móti Írlandi í vináttulandsleik liðanna um miðjan júní, mun að öllum líkindum leiða framlínu Íslands í kvöld.

Fréttablaðið/Valli

Þorsteinn Hreiðar Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, sem er að stýra Íslandi í sínum fyrsta keppnisleik sagði hins vegar á blaðamannafundi að liðsuppstilling hans myndi mögulega koma á óvart. Það gæti verið að Þorsteinn leiti á önnur mið í stöðu fremsta leikmanns eða annars staðar á vellinum.

Sandra Sigurðardóttir, einn markvarða íslenska liðsins, æfði ekki með liðinu vegna eymsla í öxl en Þorsteinn sagði að það meiðsli myndu ekki koma í veg fyrir að hún væri leikfær. Sandra og Cecilia Rán Rúnarsdóttir skiptu með sér vináttulandsleikjunum gegn Írlandi í sumar og spennandi verður að sjá hvor muni standa á milli stanganna í leiknum í kvöld.

Í hópnum að þessu sinni er einn hreinræktaður hægri bakvörður en það er Elísa Viðarsdóttir en Þorsteinn sagði á blaðamannafundi fyrir þennan leik að hann væri með Guðnýju Árnadóttur sömuleiðis í þá stöðu í þessu verkefni.

Spennandi verður að sjá hvort að Amanda Andradóttir, sem er í A-landsliðshópi Íslands, í fyrsta skipti fái tækifæri í þessum leik en þessi 17 ára gamli framherji hefur skorað þrjú mörk í 11 leikjum fyrir Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni á yfirstandandi leiktíð.

Líklegt byrjunarlið íslenska liðsins: Sandra Sigurðardóttir – Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Guðný Árnadóttir - Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir – Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir.

Fréttablaðið/Valli