Þorsteinn Halldórsson, þjálfari landsliðsins, segir að sé ákveðin óvissa hvernig Corinne Diacre tefli fram byrjunarliði sínu á morgun þar sem Diacre geri sjaldan margar breytingar.

Frakkar hafa að engu að keppa á morgun enda búnar að tryggja sér efsta sæti riðilsins.

„Mesta óvissan fyrir þennan leik er hvernig þær byrja leikinn. Eina sem ég veit er að franski landsliðsþjálfarinn hefur ekki verið að gera margar breytingar á byrjunarliðinu, sama í hvaða keppni þær eru, æfingamót eða hvað,“ sagði Þorsteinn sem sagði ekki marga veika bletti að finna í franska liðinu.

„Það eru yfirleitt 7-8 leikmenn sem byrja alla leiki þótt að ein (innsk. Marie-Antoinette Katoto) sé dottin út. Leikmennirnir sem koma inn í þeirra stað verða alltaf góðir en við höfum farið vel yfir franska liðið og ég held að við séum ágætlega undirbúin.“

Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður íslenska liðsins, segir að fjarvera Katoto breyti ekki undirbúningi þeirra.

„Nei, það gerir það ekki. Þær eru með það stóran hóp, að ef einhver dettur út, sama hvar í liðinu, þá kemur annar nánast alveg eins leikmaður inn. Þetta er ekkert sem við höfum sett mikla orku í.“