Þór sendi frá sér tilkynningu í gærkvöld þar sem fram kom að framtíð körfuboltans hjá félaginu væri tryggð og að Þórsarar myndu senda lið til leiks í Dominos-deild karla í vetur.

Fram kom á vef Körfunnar að tvísýnt væri með þáttöku Þórs í efstu deild karlamegin í vetur stuttu eftir að ákveðið var að draga kvennalið félagsins úr 1. deildinni.

Í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Þórs í dag kemur fram að boðað hafi verið til samstöðufundar þar sem á fimmta tug manns mættu og fimm nýjir stjórnarmeðlimir voru kosnir.

Þá stigu fjölmargir stuðningsmenn fram og buðust til að taka þátt í fjáröflunarverkefnum sem gerir það að verkum að félagið treystir sér í verkefnið framundan.