Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, var ekki tilbúinn að segja til um hvort að keppnisíþróttir fengu leyfi fyrir því að hefjast á ný í næstu viku þegar hann var spurður út í málið á upplýsingafundi dagsins.

Samkomutakmarkanir sem hafa verið í gildi í tæpan mánuð gefa grænt ljós á æfingar hjá einstaklingum en ekki keppni þeirra á milli. Ný tilmæli verða gefin út í næstu viku.

Magnús Már Einarsson, ritstjóri Fotbolti.net, spurði Þórólf hvernig horfurnar væru að keppnisíþróttir yrðu leyfðar í næstu aðgerðum en Þórólfur steig varlega til jarðar.

„Ég vil ekki fara yfir það hvaða tillögur verða gerðar sem taka gildi þann þrettánda að svo stöddu en við verðum að fara varlega. Við hugsum um keppnisíþróttir eins og allt annað í þessu samfélagi og erum í stöðugi sambandi við alla aðila sem hafa orðið fyrir takmörkunum, “ sagði Þórólfur meðal annars.

„Við erum auðvitað að reyna að gera okkar besta í því að halda þessum faraldri niðri á sama tíma og að hafa aðgerðirnar ekki of íþyngjandi. “