Leikmenn Þórs/KA sýndu sínar bestu hliðar þegar liðið fékk HK/Víking í heimsókn á Þórsvöllinn í níundu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Lokatölur í leiknum urðu 6-0 Þór/KA í vil en það voru Stephany Mayor, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, Lára Kristín Pedersen, Heiða Ragney Viðarsdóttir og Andrea Mist Pálsdóttir sem skoruðu mörk norðanliðsins.

Mayor skoraði tvö marka Þórs/KA en hún er þar af leiðandi orðin markahæsti leikmaður deildarinnar í sumar með tíu mörk og Elín Metta Jensen framherji Vals kemur næst með níu mörk.

Þór/KA er í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig eftir þennan sigur en liðið er átta stigum á eftir Val og Breiðabliki sem eru jöfn að stigum á toppnum. HK/Víkingur vermir hins vegar botnsæti deildarinnar með sex stig líkt og Keflavík sem er sæti ofar vegna betri markatölu.