Eins og fram hefur komið er starfslið íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í sóttkví vegna smits hjá starfsmanni knattspyrnusambands Íslands, KSÍ. Visir.is greinir frá þvíað hinn smitaði sé Þorgrímur Þráinsson sem hefur verið hluti af starfsliði íslenska liðsins undanfarin ár.

„Ég er sökudólgurinn,“ segir Þorgrímur í samtali við Vísi en hann segist ekki finna fyrir neinum einkennum vegna kórónaveirunnar og hefur ekki áhyggjur af því að veikjast á næstu dögum.

„Ég hef engar áhyggjur af því. Ég er bara feginn að þetta sé ég en ekki einhver annar,“ segir Þorgrímur enn fremur þegar hann ræðir við Vísi um málið.

Ísland leikur gegn Belgíu í Þjóðadeildinni á Laugardalsvellinum annað kvöld. Þar sem Þorgrímur er hluti af starflsliði íslenska liðsins eru þjálfarar liðsins, Erik Hamrén og Freyr Alexandersson sem og aðrir í starfsliðinu í sóttkví.

Það er því ljóst að Hamrén og Freyr verða ekki á hliðarlínunni í leiknum á móti Belgum en ekki hefur komið upp smit í leikmannahópi Íslands. Af þeim sökum er leikurinn enn á dagskrá en ekki hefur verið tilkynnt hverjir verða í brúnni hjá íslenska liðinu.