Knattspyrnukonan Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, leikmaður KR, er sennilega tímabundið Íslandsmethafi í fjölda skipta sem einstaklingur hérlendis þarf að lúta sóttkví því hún er á leið í sína fjórðu afplánun frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst. Þórdís lauk þriðju sóttkví sumarsins síðastliðinn föstudag og náði því að njóta frelsisins í fimm daga.

Á milli tíðinni, nánar tiltekið á mánudaginn, spilaði KR hörkuleik við Val í Pepsi Max-deild kvenna en í dag var svo greint frá því að starfsmaður í þjálfarateymi liðsins hefði greinst með smit. Þar með var allt KR-liðið sent í sóttkví í þriðja skiptið í sumar.

„Þetta er ekkert sérstaklega skemmtilegt en maður verður að reyna að taka þetta með jákvæðni. Það bjargar manni alveg að fara út í göngutúra og stunda sem mest aðra hreyfingu,“ segir Þórdís.

Hún segir að fyrsta sóttkvíin hafi verið erfiðust enda hafi veðrið þá verið slæmt sem og að mikil óvissa og ótti var í samfélaginu.

„Tvær síðustu hafa verið mun auðveldari en þá hef ég líka haft félagsskap í sóttkvínni,“ segir Þórdís. Það sama verður upp á teningnum nú en Þórdís verður í sóttkví með liðsfélaga sínum. Aðspurð hvort að hún eigi eftir einhverjar spennandi þætti á Netflix þá svarar hún: „Ég kláraði Netflix í fyrstu sóttkvínni".

Hún segist alveg hafa átt von á því að þurfa að fara aftur í sóttkví í sumar en að þessi nýjasta hafi komið fyrr en hún ætlaði. „Miðað við tíðnina hjá mér í sumar þá ætti næsta sóttkví að hefjast í kringum 12. september. Þetta er því að gerast aðeins of fljótt fyrir minn smekk," segir.

Athygli vekur að KR-liðið hefur spilað fantavel þá leiki sem liðið hefur spilað strax eftir að liðið hefur lokið sóttkví sinni. „Já, við höfum mætt banhungraðar í þá leiki. Við erum farnar að halda að þetta séu samantekin ráð þjálfarana að koma okkur sem oftast í sóttkví,“ segir Þórdís og hlær.