Þórarinn Ingi Valdimarsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Stjörnunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu á samfélagsmiðlum Stjörnunnar.

Þórarinn Ingi hefur verið fjarri knattspyrnuvellinum vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik með Stjörnunni í júní árið 2019 en þá sleit hann kross­band og sin í hægra hné hans auk þess sem áverk­ar urðu á liðbönd­um í hnénu.

Þessi þrítugi leikmaður gekk til liðs við Stjörnuna frá FH árið 2018 og var fastamaður í Stjörnuliðinu sem bakvörður eða kantmaður þar til hann varð fyrir fyrrgreindum meiðslum.

Stjarnan er sem stendur í fjórða sæti Íslandsmótsins með 31 stig líkt og Breiðablik sem er sæti ofar þar sem liðið hefur betri markatölu. Hlé er á deildinni eins og sakir standa vegna kórónaveirufaraldursins en stefnt er að því að næsti leikur Stjörnumanna í deildinni verði gegn Skagamönnum á Samsung-vellinum sunnudaginn 8. nóvember.