Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC, segir að það sé engin varaáætlun til staðar og að Ólympíuleikarnir muni fara fram í Tókýó á þessu ári eins og áætlanir segja til um. Á morgun eru sex mánuðir í opnunarhátíð Ólympíuleikanna eftir að ákveðið var að fresta keppninni á síðasta ári en í nýlegri könnun í Japan sögðust tæplega áttatíu prósent vera hliðholl því að fresta leikunum eða aflýsa þeim.

Japönsk stjórnvöld stefna að því að hefja bólusetningar á almenningi í vor í von um að koma upp hjarðónæmi fyrir leikana sjálfa en aukning smita í Japan að undanförnu hefur leitt til þess að umræðan um að fresta leikunum er komin upp á ný.

Formaður skipulagsnefndar leikanna hefur gefið það út að ef leikunum verði frestað aftur myndi nefndin kjósa að þeim yrði einfaldlega aflýst.

„Á þessari tímasetningu sé ég enga ástæðu til að halda því fram að Ólympíuleikarnir hefjist ekki þann 23. júlí næstkomandi. Þess vegna erum við ekki með neina varaáætlun til staðar og erum staðráðnir í að halda okkur við þessa áætlun,“ sagði Bach í viðtali við japanskan fjölmiðil.

Í breska blaðinu Times sem kom út í dag er fullyrt að stjórnvöld í Tókýó séu búin að sætta sig við að leikarnir fari ekki fram en því var neitað af forsætisráðherra Japans.