Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson hefur átt ansi gott ár í boltanum. Hann er fastamaður á milli stanganna hjá Viking í norsku úrvalsdeildinni og á dögunum lék hinn 22 ára gamli Patrik sinn annan A-landsleik fyrir Íslands hönd. Kappinn setur markið hátt með bæði félags- og landsliði.

Patrik er nýkominn úr verkefni með íslenska landsliðinu, þar sem liðið vann Eystrasaltsbikarinn. Ísland lagði Litáen að velli í undan­úrslitum mótsins og Lettland í úrslitaleiknum. Báðir leikirnir fóru alla leið í vítaspyrnukeppni. Patrik stóð á milli stanganna í seinni leiknum.

„Við gerðum það sem við ætluðum okkur, að vinna mótið. Það var kannski ekki á sem fallegastan hátt,“ segir Patrik í samtali við Fréttablaðið. Þó að mótið hafi ekki verið það stærsta segir hann skemmtilegra að hafa að einhverju að keppa, ólíkt því þegar hinir hefðbundnu vináttulandsleikir eru spilaðir.

Það var ansi kalt er leikurinn gegn Lettum fór fram, um átta gráður í mínus. Það gerði liðunum erfiðara fyrir.

„Teigarnir voru gegnfrosnir. Völlurinn var aðeins mýkri á miðjunni því þar var dúkur fyrir leik. Það var ekki þægilegt að skutla sér. Það var líka erfitt að fóta sig og komast undir spyrnur því þetta var bara eins og að spila á flísum.“

Hefur sýnt þolinmæði

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður segir Patrik að íslenska liðið hefði átt að klára Letta á venjulegum leiktíma, sem og Litáa í undanúrslitum.

„Við áttum aldrei að hleypa þessu í vító. Við áttum að klára þetta á venjulegum leiktíma, sérstaklega því við vorum manni færri í klukkutíma. Við fengum færin en eins og í fyrri leiknum gegn Litáen kannski vantaði gæði á síðasta þriðjungi.“

Patrik var að spila sinn annan landsleik gegn Lettlandi. Hann varði síðustu vítaspyrnu Letta í úrslitaleiknum.

„Ég hef verið mjög þolinmóður síðan ég var færður upp úr U-21 árs liðinu. Það var mjög sætt fyrir mig að verja síðustu spyrnuna.“

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari hefur haft verk að vinna frá því hann tók við stjórn íslenska liðsins í lok árs 2020. Patrik hafði áður starfað undir hans stjórn hjá U-21 árs liði Íslands.

„Ég tel að Arnar hafi gert mjög vel úr því sem hann fékk í hendurnar. Hann er kominn með sinn hóp og sitt lið. Ég held að það séu bjartir tímar fram undan og að við getum gert eitthvað í næsta undanriðli,“ segir Patrik.

Menn á borð við Aron Einar Gunnarsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Sverri Inga Ingason og Guðlaug Victor Pálsson hafa snúið aftur í lið Íslands undanfarið.

„Það fóru margir reynslumiklir menn út úr liðinu í byrjun. Þá þurftu þeir ungu að stíga upp. Við öðluðumst mikla reynslu á því tímabili. Nú eru þeir nokkrir komnir til baka og það gerir svo mikið fyrir þennan hóp að fá þessa reynslubolta aftur. Það er mjög mikilvægt fyrir framtíðina að hafa þessa blöndu af ungum og reynslumeiri leikmönnum.“

Arnar hefur úr öflugum markvörðum að velja í íslenska liðinu, en þar eru Rúnar Alex Rúnarsson og Elías Rafn Ólafsson, ásamt Patrik.

„Samkeppnin er mjög góð og heilbrigð. Ég og Elías erum í yngri kantinum. Það eru yfirleitt eldri menn í markinu og Rúnar var þolinmóður þegar Hannes (Þór Halldórsson) var í liðinu. Hann hefur verið að spila mjög vel í Tyrklandi og ég skil vel að hann hafi staðið í markinu lungann úr landsleikjunum. Við Elías verðum bara að vera þolinmóðir.“

Skildi ákvörðunina

Patrik er á mála hjá Viking í norsku úrvalsdeildinni. Tímabilinu þar lauk um miðjan mánuðinn og höfnuðu Patrik og félagar í ellefta sæti.

„Persónulega gekk mér mjög vel á tímabilinu. Liðinu gekk mjög vel í byrjun, við vorum á toppnum eftir 10-12 leiki. Svo fórum við í undankeppni í Evrópukeppni og vorum kannski með aðeins of lítinn hóp. Þá riðlast þetta svolítið til í deildinni. Svo dettum við út úr Evrópu og erum dottnir úr titilbaráttu í deildinni. Þá er eins og loftið hafi kannski lekið úr einhverjum leikmönnum.“

Það var einmitt um það leyti sem umræddir Evrópuleikir voru spilaðir að erlent félag steig fram með gott tilboð í Patrik. Hann segir tilboðið hafa komið frá Belgíu.

„Þetta er klúbbur sem er búinn að standa sig vel og spila í Evrópu. Þetta var spennandi. Tilboðið var veglegt en þetta var kannski ekki rétti tímapunkturinn fyrir Viking til að selja.“

Norska félagið hafnaði tilboðinu og skildi Patrik það vel.

„Þegar tilboðið kom var ég ekki mikið að velta mér upp úr þessu því við vorum í miðri undankeppni Evrópu. Mér var búið að ganga mjög vel og þetta var bara góð viðurkenning fyrir mig. Ég skildi Viking vel að taka ekki þessu tilboði á þessum tímapunkti.“

Patrik er samningsbundinn Viking út árið 2025. Hann er ungur að árum og liggur ekki á að fara, þó að markið sé sett hærra.

„Ég er ungur fyrir markmann og er búinn að vera að spila alla leiki í meira en tvö ár. Það mikilvægasta fyrir mig er að spila og þróa minn leik. Ég stefni alltaf hærra. Næsta skref er kannski eitthvað eins og Belgía. Maður sér hvað gerist á næsta árinu eða svo,“ segir Patrik Sigurður Gunnarsson