Íslenska karlalandsliðið í fótbolta laut í lægra haldi, 4-0, þegar liðið fékk Þýskaland í heimsókn á Laugardalsvöll í undankeppni HM 2022 í kvöld.

Þýskaland komst yfir strax á fimmtu mínútu leiksins en þá unnu kantmenn þýska liðsins saman. Leroy Sané renndi þá boltanum á Serge Gnabry sem skoraði með skoti af stuttu færi.

Þjóðverjar tvöfölduðu svo forystu sína um miðbik fyrri hálfleiks. Joshua Kimmisch sendi þá fyrirgjöf úr aukaspyrnu á Antonio Rüdiger sem var einn á auðum sjö og skallaði boltann í netið.

Sané skoraði svo þriðja mark þýska liðsins í upphafi seinni hálfleiks. Leon Goretzka renndi þá boltanum á Sané sem skoraði með frábæru skoti úr þröngu færi.

Timo Werner rak síðan síðasta naglann í líkkistu Íslands undir lok leiksins. Kai Havertz renndi þá boltanum á samherja sinn hjá Chelsea, Werner, sem rak smiðshöggið á sóknina.

Ísak Bergmann Jóhannesson lék sinn sjöunda landsleik í kvöld.
Þórir Jóhann Helgason var að spila þriðja landsleik sinn.

Eins og við var að búast voru gestirnir með boltann lungann úr leiknum. Ísland átti þó tvær fínar sóknir í fyrri hálfleik. Ísak Bergmann Jóhannesson átti skot í fyrri sókninni sem Manuel Neuer varði og Jóhann Berg Guðmundsson skaut framhjá í seinni sókninni.

Þá náði íslenska liðið að koma boltanum í netið í byrjun seinni hálfleiks. Jóhann Berg átti þá skot í stöngina og frákastið fór fyrir fætur Alberts Guðmundssonar sem setti boltann í netið. Albert var hins vegar dæmdur rangstæður.

Goretzka náði einnig að koma boltanum fyrir Þýkaland en það mark var sömuleiðis dæmt af vegna rangstöðu.

Lið Íslands var þannig skipað í þessum leik:

Mark: Hannes Þór Halldórsson

Vörn: Ari Freyr Skúlason, Jón Guðni Fjóluson, Brynjar Ingi Bjarnason, Birkir Már Sævarsson

Miðja: Guðlaugur Victor Pálsson (Andri Fannar Baldursson '89), Birkir Bjarnason, Ísak Bergmann Jóhannesson (Arnór Sigurðsson '71)

Sókn: Jóhann Berg Guðmundsson (f) (Jón Dagur Þorsteinsson '71), Albert Guðmundsson (Andri Lucas Guðjohnsen '80), Þórir Jóhann Helgason.

Eftir sex umferðir er íslenska liðið með fjögur stig í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins. Þýskaland er hins vegar á toppnum með 15 stig. Armenía er í öðru sæti með 11 stig, Rúmenía í því þriðja með 10 stig og Norður-Makedónía fjórða með níu stig.

Liechtenstein er á botni riðilsins með eitt stig sem liðið náði í með jafntefli gegn Armeníu í dag. Norður-Makedónar og Rúmenar gerðu sömuleiðis jafntefli í sínum leik í kvöld.

Jóhann Berg Guðmundsson var fyrirliði Íslands í leiknum.