Þýska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að leyfa trans fólki að ákveða sjálft hvort að þau leiki í karla- eða kvennaliðum, nokkrum dögum eftir að Alþjóðasundsambandið úrskurðaði að trans konur mættu ekki keppa í kvennaflokki á afreksstigi.

Ákvörðun þýska knattspyrnusambandsins nær til knattspyrnu, hvort sem um ræði atvinnumanna- eða áhugamannadeildir og futsal.

Með því er trans fólki, tvíkynja- og kynsegin einstaklingum boðið að velja hvort þau leiki með karla- eða kvennaliðum.

„Í grunninn gengur þessi regla út á að einstaklingar sem hafa gengist undir kynjaleiðréttingu geti tekið eigin ákvörðun hvort að þau leiki með karla- eða kvennaliðum,“ kom fram í yfirlýsingu frá þýska knattspyrnusambandinu.

Fyrir fjórum árum síðan ákvað þýska knattspyrnusambandið að bæta valmöguleikanum „Annað“ við kynjaskráningu.

Alþjóðaknattspyrnusambandið og Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hafa bæði lýst yfir að keppnisréttur trans kvenna verði tekinn til skoðunar en Alþjóðaruðningssambandið (E. International Rugby League) bannaði trans konur í kjölfarið af ákvörðun Alþjóðasundsambandsins.