Albert Þór Jónsson, sjálfstætt starfandi viðskiptafræðingur og stjórnarmaður hjá Reginn, skrifar aðsenda grein í Morgunblaðið í dag. Þar reifar Albert Þór kosti þess að byggja nýjan þjóðarleikvang fyrir fótbolta, sem er í burðarliðnum, í Kópavogsdal.

„Dæmi um framkvæmd sem upplagt væri að ráðast í sem allra fyrst er þjóðarleikvangur fyrir knattspyrnuna. Góðar hugmyndir hafa komið fram í því samhengi, þar á meðal hugmyndin um að slíkur leikvangur rísi í Kópavogsdal.

Myndi völlurinn, sem hannaður yrði af fremstu arkitektum landsins, enn fremur taka mið af sjálfbærni, endurnýjanlegri orku og heitu vatni og vera kennileiti fyrir íslenska sérstöðu. Ekki er ólíklegt að kostnaður við framkvæmdina verði 12-15 ma. kr.

Smærri þjóðir eins og Færeyingar og Lúxemborgarar eru með þjóðarleikvanga sem uppfylla allar alþjóðlegar kröfur. Mikilvægt er að þjóðarleikvangurinn uppfylli allar ströngustu kröfur UEFA um lýsingu og aðbúnað til að spila landsleiki, Evrópuleiki og leiki í Meistaradeild Evrópu, segir Albert Þór sem snýr sér næst að fjármögn þjóðarleikvangsins.

Albert Þór Jónsson hefur reynslu af byggingarframkvæmdum.

„Mjög auðvelt er að fjármagna slíkar innviðafjárfestingar með grænni fjármögnun sem lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestar væru áhugasamir um.

KSÍ þarf að taka stefnumótandi ákvörðun um að hefja framkvæmdir á nýjum þjóðarleikvangi fyrir knattspyrnu í Kópavogi.

Í Kópavogsdal er stærsta íþróttafélag landsins, Breiðablik, með um 4.000 félagsmenn. Íþróttasvæði Breiðabliks er með einstaka staðsetningu með tilliti til umferðar, bílastæða við Smáralind, Smáratorg og í kringum íþróttasvæði félagsins.

Mikilvægt er að helstu hagaðilar verkefnisins, KSÍ, Kópavogur og Breiðablik, stofni félag með svipuðum hætti og Spölur var stofnaður á sínum tíma við uppbyggingu Hvalfjarðarganga. Með uppbyggingu þjóðarleikvangs og íþróttasvæðis Breiðabliks má búast við auknum umsvifum og viðskiptum í miðju höfuðborgarsvæðisins sem margir kalla „grænu miðjuna“.

Íbúar í Kópavogi eru um 40 þúsund, sem er um 12% af landsmönnum, en Kópavogsdalur er miðja höfuðborgarsvæðisins með mörg öflugustu fyrirtæki landsins í nágrenninu," segir viðskiptafræðingurinn.

Landsleikir myndu færast úr Laugardalnum í Kópavognum næðu hugmyndir Alberts Þórs fram að ganga.
Fréttablaðið/Eyþór

„Fjármögnun verkefnisins ætti að vera tryggð en lífeyrissjóðir, innviðasjóðir sjóðastýringarfélaga og erlendir fjárfestar bíða eftir arðsömum innviðaverkefnum til að fjárfesta til lengri tíma. Staðsetning, umfang og mikilvægi þessa verkefnis mun auka áhuga slíkra langtímafjárfesta.

Ekki er ólíklegt að hægt væri að fjármagna framkvæmdina með útgáfu grænna skuldabréfa til 25 ára með 1,5% vöxtum verðtryggðum, en lífeyrissjóðir eru spenntir fyrir grænum skuldabréfum til langs tíma í arðbær „innviðaverkefni“. Þjóðarleikvangur í Kópavogsdal gæti orðið eitt mikilvægasta og fallegasta innviðaverkefni sem ráðist hefur verið í í langan tíma ef metnaður og framúrskarandi hönnun íslenskra arkitekta fær að njóta sín.

Gera þarf rekstraráætlun um rekstur mannvirkja, sem getur greitt stofnkostnað niður á 25 árum eða á skemmri tíma.

Hugmyndir hafa komið fram um heilsuklasa og íþróttaháskóla í Kópavogsdal sem hluta af metnaðarfullum áformum um uppbyggingu í Kópavogsdal sem tryggir aukna ásókn í starfsemi og nýsköpun í kringum nýjan þjóðarleikvang," segir hann enn fremur um fjármögnunina og framtíðaráformin sem hann telur heillavænlegust í þessum efnum.