Í febrúar árið 2021 var skipaður starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardal. Starfshópurinn starfaði undir stjórn Björns Axelssonar skipulagsfulltrúa og hefur nú skilað af sér skýrslu um skipulagsmál í Laugardalnum en á meðal þess sem niðurstöður starfshópsins sýna fram á er að rúma megi þjóðarleikvanga í innahúsíþróttum, knattspyrnu sem og frjálsum íþróttum í Laugardal.

Þetta kemur fram í tillögu sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, lagði fram á fundi borgarráðs þann 27. janúar síðastliðinn.

,,Sýnt er fram á að rúma megi þjóðarhöll, þjóðarleikvang í innanhúsíþróttum (m.a. handbolt og körfubolta) við hlið núverandi Laugardalshallar, upp að Suðurlandsbraut þar sem gengið yrði beint inn í hana úr stöð Borgarlínu. Austan frjálsíþróttahallar er staðsettur Þjóðarleikvangur í frjálsum íþróttum. Á svæði Laugardalsvallar er gert ráð fyrir þjóðarleikvangi í knattspyrnu. Ósamið er um fjármögnun þjóðarleikvanga milli ríkis og borgar," segir í tillögu sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, lagði fyrir borgarráð á dögunum.

Sýnt er fram á að rúma megi þrjá þjóðarleikvanga í Laugardalnum í nýrri skýrslu frá starfshópi um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardalnum
Mynd: Skýrsla starfshóps um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardalnum

Laugardalur, bíllaust svæði?

Reifaðar eru hugmyndir um Laugardal sem bíllaust íþrótta- og útivistarsvæði í skýrslu starfshópsins. Þar er spurt að því hvort það gæti verið falleg framtíðarsýn að sjá Laugardal sem bíllaust svæði sem myndi þá gerast í skrefum þar sem fyrst yrði lokað á gegnumakstur um Engjaveg og svo skoðað hvort einhver hluti lítið notaðra bílastæða gætu umbreyst í græn almenningsrými.

Í skýrslunni er einnig nefnd sú staðreynd að stór svæði sem eru undirlögð bílastæðum, séu oftar en ekki að hluta til lokuð þegar að stórviðburðir eru í Laugardalnum. Þetta hefur til að mynda verið gert á bílastæðunum fyrir utan Laugardalsvöllinn þar sem stæðin hafa verið notuð undir svokölluð áhorfendasvæði. Einnig hefur verið gripið til þeirra ráða að loka fyrir bílastæðin til þess að létta á umferð í kringum Laugardalinn, þá hefur almenningur, sem sótt hefur stóra viðburði á svæðinu, verið beðinn um að nýta sér almenningssamgöngur.

Bílastæðin fyrir framan Laugardalsvöll hafa oftar en ekki verið notuð sem áhorfendasvæði (fan zone) fyrir leiki íslensku landsliðana í knattspyrnu
Fréttablaðið/Ernir

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér en hún hefur nú verið send til umfjöllunar í skipulags- og samgönguráði, menningar- íþrótta og tómstundaráði og íbúaráði Laugardals. Þá verður hún einnig kynnt á opnum íbúafundi borgarstjóra.

Karpað um þjóðarleikvanga í þinginu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðresinar, beindi fyrirspurn um þjóðarleikvanga til Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra á Alþingi í gær.

Ásmundur segir aðdragandann að skóflustungu á nýrri þjóðarhöll Íslendinga vera að styttast. Hann segist hafa átt formlega og óformlega fundi með Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur og að ekki sé nein ástæða til þess að ætla annað en að hjá borgin standi af fullum hug á bak við það að finna lausn á máli er varðar þjóðarleikvanga Íslands.

Reykjavíkurborg hefur nú þegar tekið til hliðar tvo milljarða í verkefnið og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sakaði Ásmund Einar um tvískinnung í svari sínu við fyrirspyrn Þorgerðar. ,, Það er gott að heyra afdráttarlaust svar ráðherra hér í dag vegna þess að í síðustu viku hélt hann því fram í Morgunútvarpi Rásar 2 að það væri einhver störukeppni við borgina. Ég var nokkuð hvumsa við að heyra þessa yfirlýsingu af því að borgin er búin að taka frá tvo milljarða í þessar byggingar. Þannig að það stendur ekki á Reykjavíkurborg að koma að byggingu þessara mannvirkja."

Þorgerður Katrín sagði nóg komið af nefndum, ráðum og skýrslum um málefni þjóðarleikvanga Íslands. ,,Allt liggur fyrir, það þarf bara að taka ákvörðun og hana þarf að taka núna. Þetta snýst um pólitískan vilja, boltinn er hjá ríkisstjórninni og ég vona að hún tali skýrt."