John Kavanagh, þjálfari Gunnars er í viðtali við MMA fréttir þar sem hann kveðst afar ánægður með standið á Gunnari, það sé allt að smella hjá honum. Enn fremur sé Gunnar hamingjusamur, það skili sér í hættulegum bardagamanni.
Gunnar eyddi drúgum tíma í Dublin á Írlandi þar sem hann æfði hjá SBG undir handleiðslu Kavanagh og með veltivigtarmeistara Bellator, Yaroslav Amasov.
„Á þessum skamma tíma fannst mér Gunni taka stökk uppávið og hann náði að kveikja á bardagaheilanum því það er ár síðan hann barðist síðast. Fjarveran frá keppni hefur svo sem aldrei haft mikil áhrif á frammistöðu Gunna í búrinu, hann kemur alltaf með frammistöðu þrátt fyrir fjarveru.
En að kveikja á rofanum að fara frá þjálfun í Mjölni og yfir í að eiga mjög erfiðar lotur gegn Bellator meistara mun sýna sig í búrinu annað kvöld.“
Menn velti nú fyrir sér hversu lengi hinn 34 ára Gunnar muni halda áfram í UFC.
„Stóra spurningin er hve lengi vill hann halda áfram. Gunni þarf að svara því. Ég veit að þetta er klisja en miðað við það sem ég sá á dögunum í Dublin þá held ég að þetta sé besti Gunni sem við höfum séð.
Hlutir utan búrsins eru að ganga frábærlega núna, hann er á mjög góðum stað andlega og það er mun mikilvægara en líkamlegi þátturinn. Eins og Mike Tyson orðaði það, „a happy fighter is a dangerous fighter“ og hann virðist vera á mjög góðum stað núna, mjög hamingjusamur og þá er hann mjög hættulegur.“
Kavanagh heldur að Gunnar klári Barberena á fyrstu lotu en lesa má viðtal Péturs Marínó hjá MMA fréttum við hann hér.
Upphitunarbardagar kvöldsins hefjast klukkan 17:00 í kvöld en aðalhluti bardagakvöldsins hefst síðan klukkan 21:00.
Þar er bardagi Gunnars og Barberena sá þriðji í röðinni og gera má ráð fyrir því að hann fari fram milli klukkan 22:00 og 23:00 en það veltur samt sem áður á því hversu lengi fyrstu tveir bardagar aðalhlutans standa yfir.
Hér má sjá dagskrá bardagakvölds UFC sem vefsíðan MMA fréttir hefur tekið saman: