Þjálfari tékkneska kvennalandsliðsins, Karel Rada, segist vera farinn að þekkja íslenska kvennalandsliðið vel og segir að leikmenn tékkneska liðsins geri sér grein fyrir mikilvægi hans.

Eins og fjallað var um í Fréttablaðinu í dag er um algjöran úrslitaleik fyrir Tékka að ræða. Jafntefli fer langt með að tryggja Íslandi eitt af efstu tveimur sætum riðilsins en íslenskur sigur myndi þýða að Ísland væri búið að tryggja sér umspilssæti að hið minnsta.

„Við vitum að þetta er mikilvægasti leikur undankeppninnar. Eftir tapið á Íslandi þurfum við að vinna leikinn og ef okkur tekst að vinna komum við okkur í vænlega stöðu til að ná öðru sæti riðilsins og umspili.,“ sagði Rada í samtali við tékkneska knattspyrnusambandið.

„Þessi lið þekkjast vel og ég veit við hverju má búast frá íslenska liðinu. Við þekkjum styrkleika þeirra vel og reynum að nýta okkur veikleikana. Þetta ræðst líklegast á einstaklingsgæðum.“

Þá minntist Rada á að íslenska liðið hefði fengið góða hvíld milli leikja og ferðaþreyta ætti því ekki að trufla íslenska hópinn í dag.