David Nielsen mun yfirgefa stöðu sína sem þjálfari danska knattspynufélagsins AGF eftir tímabilið. Þetta hefur verið staðfest í fréttatilkynningu frá AGF en með liðinu leika Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Neville Anderson.

Dökk ský hafa umlukt AGF á tímabilinu, rangar ákvarðanir hafa verið teknar bæði innan sem utan vallar og það skilaði sér í því að félagið fór frá því að telja sæti sitt öruggt í dönsku úrvalsdeildinni yfir í að sogast niður í fallbaráttu.

Sæti AGF í deildinni er nánast öruggt en liðið er þremur stigum frá fallsæti en með mun betri markatölu en Vejle fyrir lokaumferð tímabilsins.

Jón Dagur Þorsteinsson mun einnig yfirgefa félagið í sumar en samningur hans við AGF er að renna út og Jón hefur gefið það út að hann hyggist leita á önnur mið.