Þjálfari Gunnars, Írinn John Kavanagh, setti fram fremur athyglisverða færslu á samfélagsmiðlinum Twitter á dögunum. Þar stakk hann upp á því að Gunnar myndi berjast við hinn rússneska Khamzat Chimaev sem er enn ósigraður í UFC eftir 10 bardaga.

,,Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með hinum hæfileikaríka Khamzat Chimaev undanfarið. UFC er á leiðinni til London í mars, sem áhugamaður um íþróttina myndi ég elska að sjá hann berjast við Gunnar Nelson. Það er stutt flug til London," sagði Kavanagh og lagði um leið hugmyndina undir Harald Dean Nelson, föður og umboðsmann Gunnars sem og Sean Shelby, fulltrúa UFC.

Gunnar barðist síðast í september 2019 gegn Gilbert Burns í bardaga sem tapaðist. Gunnar glímdi við meiðsli fyrir og eftir bardagann og hefur ekki stigið inn í búrið á vegum UFC síðan þá. Í viðtali í þættinum MMA Hour á dögunum sagðist hann vera tilbúinn til þess að berjast við hvern sem er.

Khamzat Chimaev berst í sama þyngdarflokki og Gunnar og undanfarið hefur reynst efitt að finna fyrir hann andstæðing. ,,Við erum að reyna finna andstæðing fyrir hann. Vonandi verðum við komnir með hann fljótlega, það vill enginn berjast við þennan mann. Það eru allir yfirlýsingarglaðir á samfélagsmiðlum en þegar kemur að því að standa við orðin, vill enginn berjast við hann," sagði Dana White, forseti UFC á dögunum.

Þetta hljómar eins og verkefni fyrir Gunnar Nelson, sem hefur aldrei vikið sér undan áskorun. En það verður að teljast ansi erfitt verkefni ef hann ætlar að mæta í búrið eftir tveggja ára fjarveru og berjast við einn mest spennandi bardagamann UFC um þessar mundir.

Khamzat var heitt í hamsi á samfélagsmiðlum á dögunum. Hann vill bardaga við Nate Diaz en Diaz virðist ekki vera á sama máli. ,,Ég kem á eftir ykkur öllum, ég er hér til þess að drepa alla. Ég er kóngurinn hér," var á meðal þess sem Khamzat Chimaev skrifaði í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter á dögunum.