Christopher Brazell, Þjálfari meistaraflokks karla hjá Gróttu hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann í Íslandsmóti. Í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar Knattspyrnusambands Íslands segir að framkoma Christophers eftir leik HK og Gróttu hafi verið alvarleg og vítaverð.

Greint er frá úrskurðinum á heimasíðu KSÍ en þar segir að hegðun Christophers eftir leik HK og Gróttu í Lengjudeild karla hafi verið "alvarleg og vítaverð og falið í sér ógnandi tilburði gagnvart dómara leiksins".

Ásamt leikbanni þjálfara Gróttu var ákveðið að sekta Gróttu um 100.000 kr.

Leiknum lauk með 2-1 sigri HK og samkvæmt heimildum Fótbolta.net beið Brazell fyrir utan klefana í klukkustund eftir leik og vildi ná tali af Erlendi Eiríkssyni, dómara leiksins.

Þá segir jafnframt, samkvæmt heimildum Fotbolta.net að framkoma Christophers í garð starfsfólks HK hafi ekki verið til fyrirmyndar. Honum hafi á endanum verið vísað út úr Kórnum í Kópavogi þar sem leikurinn fór fram og að á endanum hafi Erlendur Eiríksson, dómari leiksins fengið öryggisfylgd úr Kórnum.