Nicolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari danska landsliðsins í handbolta, segir sitt lið hafa gefið allt í leikinn gegn Frakklandi í gær. Danska landsliðið tapaði 29-30 eftir að hafa verið yfir nánast allan leikinn. Tap Danmerkur þýddi það að Ísland komst ekki í undanúrslit Evrópumótsins.

Stuðningsmenn Íslands voru ekki parsáttir við ákvörðun þjálfarans um að hvíla þrjár af helstu stjörnum danska landsliðsins en hann segir það ekki hafa skipt höfuðmáli. ,,Við gáfum allt í þetta á móti Frakklandi, ég tel það enn," sagði Nicolaj á blaðamannafundi í dag.

Hann segir það ekki hafa skipt máli hvort Danir myndu mæta Spánverjum eða Svíþjóð í undanúrslitum. Með tapi gærkvöldins komust Frakkar yfir Dani í milliriðlinum. ,,Mikilvægast er að komast í undanúrslit."

Þetta er í fimmta skipti af sex mögulegum sem Nicolaj, sem tók við danska landsliðinu af Guðmundi Guðmundssyni, stýrir Dönum í undanúrslitum stórmóts. ,,Ég er sáttur með þetta. Ástæðan á bak við þennan árangur er líklegast sú að við höfum gert miklar breytingar á umhverfi landsliðsins og gerum ríkari kröfur til hvors annars."