Einn af merki­legustu at­burðum Ólympíu­leikanna í ár er án nokkurs vafa þegar Simone Biles, sigur­sælasta fim­leika­kona frá upp­hafi, á­kvað að draga sig úr liða­keppni kvenna eftir eitt stökk. Biles, sem er fjór­faldur gull­verð­launa­hafi á Ólympíu­leikunum, á­kvað einnig að draga sig úr fjöl­þrautar­úr­slitunum til að ein­beita sér að and­legri heilsu sinni.

Hlín Bjarna­dóttir var í keppnis­höllinni þegar at­vikið átti sér stað en hún er al­þjóð­legur fim­leika­dómari og dæmir á Ólympíu­leikunum í Tókýó. Hlín var ekki nema nokkrum metrum frá en allir áttuðu sig á því í upp­hitun að það væri eitt­hvað að angra Biles.

„Ég var að dæma á slánni og stökkið er svo­lítið ná­lægt. Þannig að ég hafði heyrt bara svona „vó!“ þegar hún gerði bara eina og hálfa skrúfu í upp­hitun,“ segir Hlín.

Banda­ríska stór­stjarnan skráði inn stökk sem heitir Amanar sem er Yurchen­ko-stökk inn á stökk­hestinn með tveimur og hálfri skrúfu.Þegar hún gerði upp­hitunar­stökkið sitt, sem Hlín lýsir hér að framan, hætti hún við seinni skrúfuna í loftinu og lenti afar illa. Það sama gerðist í keppni og tók Biles á­kvörðun um að hætta keppni áður en hún myndi slasa sig.

Hlín í keppnishöllinni í Tókýó.
Mynd/Aðsend

„Ég er síðan bara að dæma slána og það fer að koma að því að banda­rísku stúlkurnar koma yfir á slá en þær eiga eftir að fara á tví­slá fyrst. Þá kemur eftir­lits­maður í tölvu­kerfinu og segir: She will not compete more, she is not competing,“ segir Hlín sem vissi ekki um hvern var verið að tala á þessum tíma­punkti.

„Þeir voru bara að segja þetta fyrir aftan mig því eftir­lits­dómarinn sat við hliðina á mér. Ég hélt þá fyrst að það væri ein­hver í liðinu sem væri á leiðinni á jafn­vægisslána. En síðan bara kemur í ljós í um­ferðinni þar á eftir að Jordan Chiles er á keppnis­bolnum að hita upp með banda­ríska liðinu.

Þá fékk ég alveg í magann því hún hafði dottið tvisvar á slánni í undan­keppninni og hugsaði: Guð, hvað er í gangi, ætla þeir að láta hana keppa, eftir þessi tvö föll. En hún hafði að vísu staðið sig rosa­lega vel á loka­æfingunni,“ segir Hlín.„Simone Biles fylgdi liðinu allan hringinn sem er að­dáunar­vert en við vissum ekkert á þessum tíma hvað hafði gerst eða hvort hún væri meidd,“ bætir Hlín við.

Simone Biles á Ólympíu­leikunum í Tókýó.
Fréttablaðið/Getty

„Hún er síðan bara spurð hvort það sé nú ekki best að hvíla“

„Við fréttum það síðan bara strax frá dómurunum á stökkinu að hún hefði ekki meitt sig. Hún hefði bara gert eina og hálfa skrúfu í upp­hitun og þá fóru þjálfararnir hennar að spyrja hana „er allt í lagi, er allt í lagi?“ og hún segir bara „já, já“ en svo kemur að keppninni. Hún til­kynnir sitt stökk en gerir síðan bara aftur eina og hálfa skrúfu,“ segir Hlín og bætir við að þjálfararnir hennar hefðu séð að ekki væri allt í lagi.

„Hún er síðan bara spurð hvort það sé nú ekki best að hvíla,“ segir Hlín en fram að þessu hafði Biles verið í topp­formi á leikunum.

„Þetta eru auð­vitað fyrst og fremst mikil von­brigði fyrir hana en það sem veldur okkur sem störfum á bak við tjöldin kannski mikilli furðu er að hún stóð sig svo svaka­lega vel á loka­æfingunni. Það gekk allt upp hjá henni. Hún gerði nýja stökkið sitt (Yurchen­ko, tvö­falt heljar­stökk, vinklað) og hún hefur aldrei gert tvö­falda heljar­stökkið með þre­földu skrúfunni jafn vel. Hún var í rosa­legu líkam­legu formi og það var klappað fyrir henni á loka­æfingunni. Þannig það eru von­brigði að hún lendir í þessu á þessum tíma­punkti á ferlinum,“ segir Hlín.