Leiðtogar stjórnarandstöðunnar gerðu sitt besta til að sinna þingstörfum á meðan á leiknum gegn Svartfellingum stóð í dag, en eins og hjá flestum landsmönnum var aðalathyglin á strákunum okkar. Fréttamenn Hringbrautar fóru á stúfana á Alþingi í dag og ræddu meðal annars við alþingismennina Ingu Sæland og Loga Einarsson.
„Þetta hefur náttúrlega bara verið eins og í draumi. Maður trúir þessu ekki, miðað við öll þessi áföll og allt þá bara kemur hérna víkingurinn fram algjörlega,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins spurð um hvernig henni litist á gengi íslenska landsliðsins hingað til.
„Og framtíðin er rosa björt, þessir ungu vösku snillingar sem eru að sýna hvað í þeim býr. Við verðum heimsmeistarar áður en við vitum af, það er bara mín sannfæring!“
Hún bætti því við að Alþingi hefði þó gleymt að hugsa fyrir því að banna þingstörf meðan á leiknum stæði og því væri alveg viðbúið að hún myndi gera einhver glappaskot á þinginu.
„Þannig ég er að fara í störfin og svona og ég mun sennilega bulla einhverja vitleysu og tala ekkert um neitt nema handbolta. En bara áfram Ísland og nú þurfum við öll að æfa HÚ-IÐ,“ sagði Inga kímin.
Bróðursonurinn kallaður út til Ungverjalands
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók í svipaðan streng og Inga Sæland og kvaðst vera hæstánægður með frammistöðu landsliðsins.
„Þetta er náttúrlega búið að vera frábært. Maður vissi ekki við hverju maður átti að búast en svo erum við allt í einu að sjá lið sem við höfum kannski ekki séð áður í íslenskum handbolta þar sem að leikurinn er bara hreinlega borinn upp af öllu liðinu og þegar einhverjir heltast úr lestinni þá koma nýir, jafngóðir. Það er svona eins og þetta vaxi bara á trjánum í kringum okkur.“
Spurður um hvaða tilfinningu hann hefði fyrir leik Íslands og Svartfjallalands sagði Logi:
„Ég hef góða tilfinningu. Það sem þeir hafa líka þeir hafa svona ungæðishátt, eru æðrulausir og djarfir og kaldir. Þannig þetta er ekki lið sem er að fara á taugum. Þannig ég held þeir vinni þetta,“ sagði Logi. Hann reyndist hafa hárrétt fyrir sér því landsliðið vann mjög góðan 34-24 sigur á Svartfjallalandi.
Logi spilaði sjálfur handbolta á árum áður og hefur einnig persónulega tengingu við landsliðið því bróðursonur hans Dagur Gautason var kallaður út til Ungverjalands sem varamaður.
„Já, sonur bróður míns hann var kallaður út í gær en það eru að koma inn menn úr veikindum þannig ég er ekki viss um að hann sé með þarna í dag. En hann er allavega með þeim í Ungverjalandi og gaman fyrir hann að fá svona að þefa aðeins af þessu hvernig þetta er,“ sagði Logi.