Spænski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, Thiago Alcantara, sem gekk til liðs við Liverpool frá Bayern Munchen á dögunum hefur greinst með kórónaveiruna.

Enska félagið greindi frá þessu á samfélagsmiðlum sínum síðdegis í dag.

Thiago kom inná sem varamaður þegar Liverpool lagði Chelsea að velli í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar en var ekki í leikmannahópi liðsins í sigrunum gegn Lincoln City í enska deildarbikarnum og Arsenal í deildinni í gærkvöldi.

Fram undan er tveggja vikna sóttkví hjá miðvallarleikmanninum og missir hann þar af leiðandi af næstu leikjum Liverpool.

Þar af leiðandi mun hann missa af leikjum Liverpool gegn Arsenal í enska deildarbikarnum sem fram fer á fimmtudagskvöldið kemur og svo leik liðsins á móti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi.

Þar á eftir kemur landsleikjahlé og Thiago ætti að vera klár í slaginn í nágrannaslag Liverpool við Everton 17. október næstkomandi.