Nicolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari danska karlalandsliðsins í handbolta, segist ætla að hvíla nokkra leikmenn í leiknum gegn Frökkum á morgun. Þetta reynast ansi erfið tíðindi fyrir okkur Íslendinga en til þess að við getum tryggt okkur sæti í undanúrslitum mótsins þurfum við meðal annars að treysta á að Danir vinni Frakka.

Auðvitað þurfum við samt fyrst að klára okkar verkefni gegn Svartfjallalandi til þess að leikur Dana og Frakka sé af einhverju mikilvægi fyrir okkur.

,,Við munum reyna að spila góðan leik á miðvikudaginn en aðal áherslan núna verður að mæta til leiks með ferskt lið á föstudaginn;" sagði Nicolaj í viðtali við Jyllands-Posten en undanúrslit keppninnar verða leikin á föstudaginn.

Hann segir það öruggt að hann muni hvíla nokkra lykilleikmenn. ,,Við verðum að sjá til hverjir þurfa á hvíld að halda."

Mathias Gidsel einn besti leikmaður Dana á mótinu segir það þó hins vegar öruggt að Frakkar fari ekki að valta yfir Danmörku, þeir muni fá leik.

,,Það er alveg öruggt að Danmörk fer aldrei inn á völlinn til þess að tapa leik. Hvort sem ég mun spila eða einhverjir aðrir þá munum við mæta til leiks með mjög gott lið," sagði Mathias Gidsel, landsliðsmaður Danmerkur í handbolta.