Argentínska landsliðið í knattspyrnu tryggði sér í gær heimsmeistaratitilinn með ævintýralegum sigri á Frökkum. Þetta er þriðji heimsmeistaratitillinn í sögu Argentínu, þjóðar sem lifir fyrir fótbolta, og eftir leik tók við gífurlegur fögnuður, bæði í Argentínu sem og meðal leikmanna argentínska landsliðsins.
Hægt var að fylgjast með leikmönnum Argentínu á samfélagsmiðlum eftir að liðið hafði tryggt sér heimsmeistaratitilinn og varpa færslur þeirra þar ljósi á fagnaðarlætin sem tóku við eftir leik.
Daily Mail segir frá því að leikmenn Argentínu hafi fagnað fram á morgun. Allt byrjaði þetta með sameiginlegum kvöldverði þar sem heimsmeistaratitlinum sjálfum var stillt upp fyrir miðju og leikmenn sátu hringinn í kringum hann, misstu ekki sjónar á honum á meðan að snætt var.
Þá héldu fagnaðarlætin áfram í höfuðstöðvum liðsins í Katar, leikmenn nutu sín við að spila pool, einhverjir tóku upp Play Station 5 fjarstýringu og spiluðu FIFA og sjá mátti á tímasetningu færslnanna að klukkan var að nálgast sjö að morgni til og leikmenn ekki enn farnir að sofa.
Argentínska landsliðið flýgur síðar í dag til höfuðborgar Argentínu, Buenos Aires þar sem vænta má að liðið fái konunglegar móttökur.
🇦🇷 Yes, the celebrations in the Argentina dressing room were as beautifully chaotic as you’d imagined… pic.twitter.com/jqYwi5OkMF
— COPA90 (@Copa90) December 19, 2022



