Argentínska lands­liðið í knatt­spyrnu tryggði sér í gær heims­meistara­titilinn með ævin­týra­legum sigri á Frökkum. Þetta er þriðji heims­meistara­titillinn í sögu Argentínu, þjóðar sem lifir fyrir fót­bolta, og eftir leik tók við gífur­legur fögnuður, bæði í Argentínu sem og meðal leik­manna argentínska lands­liðsins.

Hægt var að fylgjast með leik­mönnum Argentínu á sam­fé­lags­miðlum eftir að liðið hafði tryggt sér heims­meistara­titilinn og varpa færslur þeirra þar ljósi á fagnaðar­lætin sem tóku við eftir leik.

Daily Mail segir frá því að leik­menn Argentínu hafi fagnað fram á morgun. Allt byrjaði þetta með sam­eigin­legum kvöld­verði þar sem heims­meistara­titlinum sjálfum var stillt upp fyrir miðju og leik­menn sátu hringinn í kringum hann, misstu ekki sjónar á honum á meðan að snætt var.

Þá héldu fagnaðar­lætin á­fram í höfuð­stöðvum liðsins í Katar, leik­menn nutu sín við að spila pool, ein­hverjir tóku upp Play Station 5 fjar­stýringu og spiluðu FIFA og sjá mátti á tíma­setningu færslnanna að klukkan var að nálgast sjö að morgni til og leik­menn ekki enn farnir að sofa.

Argentínska lands­liðið flýgur síðar í dag til höfuð­borgar Argentínu, Buenos Aires þar sem vænta má að liðið fái konung­legar mót­tökur.

Fréttablaðið/Skjáskot
Fréttablaðið/Skjáskot
Fréttablaðið/Skjáskot
Fréttablaðið/Skjáskot