Aðeins tvær keppnir eru eftir af tímabilinu, í Sádí-Arabíu um helgina og í Abu Dhabi eftir rúma eina og hálfa viku.

Sir Lewis Hamilton, sjöfaldur heimsmeistari og ökuþór Mercedes, hefur verið að saxa á forystu Verstappen á toppi stigakeppni ökumanna og nú skilja aðeins átta stig ökuþórana að.

Fari svo að Max Verstappen vinni um helgina og verði með hraðasta hring í keppninni sem veitir eitt stig, þarf Hamilton að enda í efstu fimm sætum keppninnar til þess að eiga möguleika á sínum áttunda heimsmeistaratitli.

Vinni Verstappen án þess að vera með hraðasta hring þarf Hamilton að enda í efstu sex sætunum til að eiga mögleika.

Sir Lewis Hamilton, sjöfaldur heimsmeistari og ökuþór Mercedes
GettyImages

Fari svo að Verstappen endi í öðru sæti og verði með hraðasta hring, þarf Hamilton að enda í efstu níu sætum keppninnar. Endi Verstappen í 2. sæti án hraðasta hrings verður hann heimsmeistari ef Hamilton mistekst að lenda í stigasæti.

Taugarnar verða þandar fyrir lokakeppnir tímabilsins og ómögulegt að segja til um það á þessum tímapunkti hver það verður sem hreppir heimsmeistaratitilinn á endanum.