Sigur, jafntefli eða tap með einu marki gegn Ungverjum á morgun þýðir að Ísland fer áfram í milliriðlana en tapi Ísland með þremur mörkum eða meira þurfa Íslendingar að treysta á portúgalskan sigur um kvöldið.

Strákarnir okkar eru í góðri stöðu, með örlögin í eigin höndum í riðlakeppninni á Evrópumótinu í handbolta. Sigur á heimamönnum í Ungverjalandi á morgun þýðir að Ísland fer áfram með fullt hús stiga í milliriðlana.

Þrátt fyrir að Ísland sé með fjögur stig þegar ein umferð er eftir og Portúgal sé án stiga er hvorki öruggt að Íslandi fari áfram né að Portúgal sé úr leik.

Staðan í riðlinum er eftirfarandi:

Ísland - 4 stig, markatalan 57:52

Holland - 2 stig, markatalan 59:57

Ungverjaland - 2 stig, markatalan 59:61

Portúgal 0 stig, markatalan 54:59

Fari svo að Ísland vinni eða geri jafntefli gegn Ungverjum annað kvöld getur ekkert annað lið náð toppsæti riðilsins.

Íslenskur sigur þýðir að Ísland fer með tvö stig í milliriðlana óháð öðrum úrslitum en jafntefli flækir stöðuna.

Með jafntefli ræðst það af úrslitunum í leik Portúgals og Hollands hvort að Ísland færi með tvö eða eitt stig í milliriðlana.

Ef leik Íslands og Ungverjalands lýkur með jafntefli þurfa Íslendingar að treysta á að Holland vinni eða að minnsta kosti nái jafntefli gegn Portúgal.

Ef Portúgal vinnur þann leik og Ísland og Ungverjaland skilja jöfn fylgja Ungverjar Íslandi upp úr riðlinum með eitt stig hvort.

Ef Ísland tapar á morgun flækjast hlutirnir enn frekar. Tap með einu marki og portúgalskur sigur þýðir að Ísland og Ungverjaland fara áfram og Ungverjaland fer með tvö stig áfram.

Tap með einu marki og hollenskur sigur þýðir að Ísland fer áfram í öðru sæti riðilsins á innbyrðis markatölu en fer samt áfram með tvö stig vegna innbyrðis viðureigna við Holland.

Fari svo að Ísland tapi með tveimur mörkum eða fleiri gegn Ungverjalandi og Holland vinni sinn leik er Ísland úr leik á óhagstæðri markatölu.

Ef Ísland tapar gegn Ungverjum þurfa Íslendingar því að treysta á að Portúgal nái í að hið minnsta kosti stig gegn Hollendingum til að fara áfram.